145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[20:25]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér liggur fyrir tillaga frá hv. þm. Samfylkingarinnar um að þessir samningar verði bara til þriggja ára. Ég spyr hv. þingmann á móti: Er það ekki einhver uppgjöf? Er það ekki uppgjöf hjá Samfylkingunni að leggja til að þessir samningar verði samþykktir yfir höfuð? Ég vek athygli á því að það liggur ekkert á. Núgildandi samningar renna nú ekki út fyrr en um næstu áramót og næstu áramót eru ekki á morgun, ekki í næstu viku og ekki í næsta mánuði. Það er nægur tími. Ef menn eru sammála um að fara, eins og lagt er til í nefndaráliti hv. atvinnuveganefndar, a.m.k. meiri hluta hennar, í einhvers konar samráð og einhverja vinnu til þess að gera og græja í þessum málum, ef ég má segja svo, þá er nægur tími, það er alveg nægur tími. Það yrði nú ekki í fyrsta sinn jafnvel þótt það drægist fram yfir áramót, en það er nú langt í áramótin. En jafnvel þótt það drægist fram yfir áramót yrði það ekki í fyrsta sinn sem búvörusamningar yrðu framlengdir um einhvern tiltekinn tíma, nokkra mánuði, eða hvað það er sem menn þurfa til þess að fara í þessa miklu og útlistuðu samráðsvinnu sem lýst er í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar.

Hv. þingmaður spyr hér um hvað ég ætli að gera. Mér finnst það græðgi. Mér finnst græðgi að spyrja þá sem hér stendur um hvað hún ætlar að gera eftir tvo daga. Ég held að hv. þingmaður sjái það bara við atkvæðagreiðslu og ég mun gera grein fyrir atkvæði mínu þegar þar að kemur. Ég vænti þess að hann verði þá viðstaddur til þess að hlýða á það.

Ég var líka spurð að því hvort ég hefði séð hvaða tollar yrðu á þessum sérmerktu ostum. Ég verð að viðurkenna að ég þekki það bara ekki. Það er auðvitað eitt af þeim málum sem þarf að upplýsa um, það hefði átt að koma fram í nefndarálitinu. Það kann þó að vera að það væru — nei, ég verð að viðurkenna það — væntanlega eru ostarnir (Forseti hringir.) tolllausir, það hlýtur nú að vera úr því að þetta er hlutkesti með einhvern tollfrjálsan innflutning.