145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[20:27]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var alveg stórmerkilegt svar. Hv. þingmaður kemur hér og flýgur hátt á vængjum andstöðu gegn þessu frumvarpi, slær sig til riddara, væntanlega í augum flokksmanna sinna með því að hún viðrar hér nokkuð útbreidda gagnrýni innan flokksins sem þingmenn flokksins hafa ekki þorað að koma fram með. En hvað gerist svo þegar gengið er eftir afstöðu hv. þingmanns? Hún fellur flöt til jarðar. Þá allt í einu hefur hún enga afstöðu. Hún þorir ekki að segja hvaða afstöðu hún hefur til málsins þó að þetta sé 2. umr. sem er beinlínis háð til þess að menn greini frá afstöðu sinni.

Það sem skiptir þó mestu máli er að þegar hv. þingmaður er búinn að lýsa því yfir að hún telji að eðlilegt sé að þessi samningur verði til þriggja ára þá skýtur hún sér undan því að segjast ætla að styðja tillögu um það. Þá allt í einu er hringsnúningurinn og rökflækjan orðin þannig að hún vill frekar fresta honum eða framlengja hann til nokkurra mánaða. Ég spyr þá hv. þingmann: Mun hún leggja fram tillögu (Forseti hringir.) um að samningurinn (Forseti hringir.) verði framlengdur til áramóta eins og hún er að tala um? Mun hún gera það?