145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[20:39]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er einmitt lóðið. Menn hafa viljað tengja tollasamninginn og undirritun þess samnings sem fram fór síðasta haust, við búvörusamninginn, löngu áður en drögin að búvörusamningum voru undirrituð. Menn hafa viljað tengja það saman. Þess vegna er því lýst í nefndaráliti meiri hluta hæstv. nefndar hvernig afturvirka verðtryggingin á verðtollum er til komin, vegna þess að að mati nefndarinnar er mikilvægt að líta á framangreindar tillögur um breytingar á magntollunum í samhengi við það að fyrirhugað er að staðfesta þennan tollasamning.

Ég lýsti því í ræðu minni að ég væri ósammála því. Ég er bara ósammála því að það eigi að gera það. Þetta er tollasamningur sem ríkið ákvað að fara í á sínum tíma. Ég veit ekki til þess að þingið eða hv. þingmenn hafi eitthvað verið upplýstir um það sérstaklega að farið yrði í viðræður við Evrópusambandið um tollfrjálsan innflutning á milli landanna, milli svæðanna, með vísan til einhverra búvörusamninga sem gerðir yrðu í framtíðinni. Ég ætla ekki að útiloka að það hafi verið gert en ég kannast ekki við það. Ég tel að menn séu núna miklu fremur að reyna að bæta enn á flækjustigið í landbúnaðarkerfinu og innflutningnshöftunum þannig að það er á varla færi sérfræðinga að fylgjast með leikfléttunum í þessu máli. Ég ítreka þá skoðun mína að ég tel ekki rétt að tengja þetta saman.