145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[20:43]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér búvörusamninga. Við ræðum nefndarálit um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum. Ég hlýt eins og hv. þingmaður sem vakti athygli á því áðan að nefna að hérna er um samning milli tveggja aðila að ræða. Hérna er um samning milli ríkisins annars vegar og Bændasamtakanna hins vegar að ræða. Hann er kominn hingað til staðfestingar. Við á Alþingi erum ekki beinir samningsaðilar að þeim samningi. Við, 63 þingmenn, getum að sjálfsögðu haft margar skoðanir á samningnum sem er upp á 27 blaðsíður. Ég er alveg viss um að allir geta fundið eitthvað í honum sem þeir eru ekki sáttir við, en ég er jafnframt sannfærður um að menn finna margt sem þeir geta sætt sig við og einhverjir ábyggilega nánast allt.

Stöðugleiki og framtíðarsýn er nauðsynleg í landbúnaði eins og í öðrum atvinnugreinum. Menn deila um hvort þetta sé þriggja ára samningur eða tíu ára. Menn geta haft sínar skoðanir á því en í rauninni erum við með ákveðinn rammasamning sem við getum þá litið á og alla vega litið á það þannig að við séum með einhverja framtíðarsýn. Við erum með tíu ára rammasamning sem við stefnum á. Eftir þrjú ár þurfum við að taka afstöðu til samningsins, hvernig til hefur tekist. Menn hafa verið að deila á samráðið, ekkert samráð hafi verið haft, ekki þessi og ekki hinn. Það kann vel að vera. Meiri hluti atvinnuveganefndar tekur á því hérna og bindur í lög að víðtækt samráð verði haft um endurskoðun eða hvernig málin þróast. Það verður strax hafist handa við að fylgja þessu máli eftir. Þeir sem kvarta yfir samráði, ókei, það var ekki nógu mikið samráð. En þegar við bindum í lög að kallaðir skulu til allir hlutaðeigandi aðilar hljóta nú allir að vera sáttir, þeir sem á annað borð kæra sig um það.

En ef við byrjum aðeins að rýna í þennan rammasamning, förum bara í 1. gr., Inngang og markmið 1.1.

„Meginmarkmið samnings þessa er að efla íslenskan landbúnað og skapa greininni sem fjölbreyttust sóknarfæri. Samningnum er ætlað að skapa landbúnaðinum ramma til að auka verðmætasköpun og nýta sem best tækifærin sem felast í sveitum landsins í þágu bænda, neytenda og samfélagsins alls. Sú uppbygging þarf að fara fram á grundvelli sérstöðu, sjálfbærni og fjölbreytni. Í því skyni eru í samningnum ný verkefni sem ætlað er að treysta stoðir landbúnaðarins og ýta undir framþróun og nýsköpun.“

Þetta eru vinsæl orð sem heyrast oft hér í þingsal úr öllum flokkum.

Markmið 1.2.

„Að almenn starfsskilyrði í framleiðslu og vinnslu búvara ásamt stuðningi ríkisins stuðli að áframhaldandi hagræðingu, bættri samkeppnishæfni og fjölbreyttu framboði gæðaafurða á sanngjörnu verði.

Að tryggja að bændum standi til boða leiðbeiningaþjónusta og skýrsluhaldshugbúnaður til að styðja við framgang markmiða samningsins.

Að við búvöruframleiðsluna sé gætt sjónarmiða um velferð dýra, heilnæmi afurða, umhverfisvernd og sjálfbæra landnýtingu.

Að auka vægi lífrænnar framleiðslu.“ — Hver vill það ekki?

„Að stuðningur ríkisins stuðli að áframhaldandi þróun í greininni og bættri afkomu bænda.

Að auðvelda nýliðun, þannig að nauðsynleg kynslóðaskipti geti orðið í hópi framleiðenda og tryggja að stuðningur ríkisins nýtist sem best starfandi bændum.“

Hver er ekki sammála þessu?

Ef við drepum hér niður í 3. gr., 3.2. Þar eru megináherslur á einstökum sviðum eftirfarandi:

„Jarðrækt: Efling ræktunarmenningar, hagkvæm fóðuröflun með lágmarksröskun umhverfis. Viðhald ræktunar, endurræktun — gras, grænfóður og korn. Markviss áburðarnotkun með tilliti til hagkvæmni og umhverfissjónarmiða, þar með talin hámarksnýtingu búfjáráburðar. Styrking innlendrar fóðurframleiðslu.“

Förum hér aðeins neðar:

„Lífrænn búskapur: Kannaðar verði markaðslegar forsendur fyrir lífrænar afurðir og hve vel tilteknar jarðir og framleiðsla hentar til aðlögunar að lífrænum búskap.

Sjálfbær þróun og landnýting: Stuðlað verði að sjálfbærni í landnotkun með markvissari beitarstjórn og fræðslu, m.a. um mikilvægi ræktarlands og líffræðilegrar fjölbreytni.“

Margir hafa áhyggjur af nýliðuninni. Í 6. gr. segir:

„Matvælastofnun ráðstafar þeim fjármunum sem ætlaðir eru til nýliðunar samkvæmt samningi þessum. Markmið þeirra er að aðstoða nýliða við að hefja búskap og auðvelda ættliðaskipti í landbúnaði.“

Hver er ekki sáttur við þetta? (ÖS: Rosalega.)

Nýmælin eru hérna nokkur. Geitfjárrækt:

„Matvælastofnun ráðstafar þeim fjármunum sem ætlaðir eru til geitfjárræktar samkvæmt samningi þessum. Markmið þeirra er að auka framboð geitfjárafurða og styðja við verndun og ræktun íslensku geitarinnar.“

Svona er nánast sama hvar maður ber niður. Allt hljómar þetta … (ÖS?: Hljómar vel, já.) Getum við ekki öll verið sátt við það? Svo endar þessi rammasamningur á bókun um byggðamál. Öll erum við sammála því að við viljum halda landinu í byggð.

„Samningsaðilar eru sammála um að ráðast í starf sem miðar að því að treysta innviði og búsetu í sveitum. Í því felist meðal annars að finna skilgreindar leiðir sem stuðla að aukinni sjálfbærni sveitanna, eflingu framleiðslu og úrvinnslu matvæla ekki síst svo að meiri virðisauki verði í byggðunum. Sérstaklega verði skoðuð uppbygging innviða, svo sem samgangna, fjarskipta og raforku. Einnig möguleika sveitanna og framlag þeirra til þátttöku í aðgerðum vegna loftslagsmála. Þá verði litið til úrræða til að treysta fjárhag bænda og greiða enn frekar fyrir ættliðaskiptum á bújörðum.“

Ég spyr bara: Hver er ekki sáttur við þetta? Þetta eru þrír samningar. Ef við berum aðeins niður í sauðfjársamninginn. Það eru margir sem hafa áhyggjur af sauðfjárræktinni. Ég er svo sem einn af þeim. Ef við förum í 6. gr. Þar segir:

„Greiddur verður býlisstuðningur til framleiðenda frá og með árinu 2018. Markmið hans er að styrkja byggð og styðja við fjölskyldubú.“

Hver er ekki sáttur við það?

Svæðisbundinn stuðningur. Það eru viss svæði sem eiga undir högg að sækja, sérstaklega þar sem sauðfjárrækt er stunduð í dag, sem við þurfum að hlúa að. Tekið er á því í þessum samningi. Það má vel vera að gera megi betur. Ég skal ekkert segja um það. En í 8. gr. segir svo:

„Greiddur verður sérstakur svæðisbundinn stuðningur á samningstímanum til framleiðenda á ákveðnum landsvæðum sem háðust eru sauðfjárrækt. Samningsaðilar eru sammála um að leita til Byggðastofnunar um að gera tillögu um skilgreiningu á þeim svæðum sem eigi kost á slíkum stuðningi. Stofnunin geri einnig tillögu um hvernig útdeilingu skuli háttað. Svæði sem rétt eiga á stuðningi skal skilgreina í reglugerð að fenginni tillögu Byggðastofnunar. Endanlegt fyrirkomulag um útdeilingu stuðnings skal einnig ákveðið í reglugerð að fenginni tillögu Byggðastofnunar og eftir umsögn framkvæmdanefndar búvörusamninga.“

Það er nánast sama hvar maður ber niður, þetta hljómar allt saman vel.

Í samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar er hnykkt á, það sem maður rekur strax augun í, að gætt sé sjónarmiða um dýravelferð og heilnæmi afurða. Það hefur verið talsvert í umræðunni, velferð dýra, hvernig eigi að flétta það hérna inn. Menn hafa svo sem misjafnar skoðanir á því hversu langt eigi að ganga, hvort við eigum að fara að beita einhverjum hegningum eða hvað. En úrræðin eru alla vega fyrir hendi. Það er svona aðeins gluggað í það hér.

Í 8. gr. um fjárfestingastuðning segir:

„Fjárfestingastuðningur verður greiddur samkvæmt töflu 1 í viðauka 1. Tilgangur hans er að stuðla að hagkvæmari búskaparháttum, bættum aðbúnaði nautgripa og aukinni umhverfisvernd. Greidd verða framlög vegna nýframkvæmda og endurbóta á eldri byggingum sem varða umhverfi, aðbúnað og velferð gripa. Framlög geta numið allt að 40% stofnkostnaðar, en hver framleiðandi getur þó ekki fengið hærra framlag en 10% af árlegri heildarupphæð fjárfestingastuðningsins.“

Svo er samningur við garðyrkjubændur sem er fléttaður inn í þetta, hefur verið sérstakur áður. Þar er tekið á niðurgreiðslu raforku sem er stærsti kostnaðarliðurinn hjá þeim bændum. Því má segja að ansi margt jákvætt sé við þennan samning. Eflaust finna einhverjir einhverja galla á honum. En það sem mikið var rætt í nefndinni var samkeppniseftirlit og samkeppnisundanþágur frá samkeppnislögum. Það er auðvitað flókið mál og viðkvæmt. En ég segi fyrir mig að ef við ætlum að tryggja að mjólk verði sótt á alla sveitabæi, hvar sem þeir eru á landinu, þá kostar það eitthvað. Ef við ætlum að semja við einhvern aðila um að gera það þá kostar það. Mér heyrist á þeim litlu framleiðendum, Örnu og Kú, að þeir hafi ekki áhuga á að takast á við einhverjar skyldur um að sækja mjólk af hinum og þessum bæjum. Það er auðvitað mjög þægilegt að geta bara pantað hráefnið í sína framleiðslu þegar þeim hentar. Það er bara eitt símtal eða einn póstur; mig vantar þetta mikið núna í dag eða á morgun eða hvenær sem er. Sá aðili sem tekur það að sér, það verður einhvern veginn að hygla honum. Ég vil fara varlega í að rústa því góða kerfi.

Það eru líka skyldur sem liggja á því fyrirtæki, þ.e. að liggja alltaf með ákveðinn lager af mjólkurafurðum og hráefni. Það kostar líka að liggja með birgðir. Það segir í nefndarálitinu að sá samráðshópur sem á að taka til starfa og vinna núna næstu þrjú árin og koma með tillögur eigi að skoða þessi mál sérstaklega. Ég geri mér miklar vonir um að eitthvað vitrænt komi úr þeirri vinnu. Það er allt of mikið í húfi, að fara að breyta þessu og kollvarpa þessu kerfi á nokkrum dögum.

Ég segi fyrir mig, fyrst við lögfestum þetta samráð, að ef við getum ekki treyst því að eitthvað gott komi út úr því þá veit ég ekki hverjum á að treysta.

Menn geta svo haft sína skoðun á upphæðunum í samningnum. Varðandi samkeppnismálin og starfsumhverfið, ef ég les hérna akkúrat það sem við segjum í nefndarálitinu:

„Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að við endurskoðunina verði af hálfu ríkisins sérstaklega kannað hvernig landbúnaðarstefnan geti enn frekar ýtt undir framleiðslu afurða beint frá býli og vöruþróun sem byggist á uppruna eða landfræðilegri sérstöðu. Jafnframt telur meiri hlutinn rétt að örva og hvetja til frekari sóknar fjölbreyttari flóru fyrirtækja í frumvinnslu búvara og auk þess að huga að fyrirkomulagi og framtíð menntunar starfsmanna afurðastöðva í mjólkurfræði og kjötiðnaði.“

Það liggur margt fyrir. Ég fór til Frakklands síðastliðið sumar og sá einn landsleik. Flaug til Parísar og fór með lest þaðan til Lyon, keyrði þar í nokkra klukkutíma með lest á 300 kílómetra hraða. Ég verð að segja að mér varð hugsað til íslenskra bænda og íslensks landbúnaðar. Það var alveg sama hvenær maður leit út um gluggann, það voru alltaf bara sléttar ekrur eins langt og augað eygði. Landbúnaður sem þar er rekinn, fyrst hann getur ekki gengið án ríkisstyrkja þá segi ég nú bara við markaðshyggjuvinstrimenn í þessum sal: Hvernig í ósköpunum dettur þeim í hug að við getum keyrt á einhverju markaðslögmáli hér án þess að styrkja þessa grein? (Gripið fram í.)

Menn hafa deilt svolítið á útflutninginn, það sé svo lágt verð fyrir það kjöt sem er flutt út. Við megum ekki bera saman epli og appelsínur. Við verðum að bera sama hlutinn saman. Langstærsti hlutinn af því kjöti sem flutt er út er aukaafurðir. Það er því ekki hægt að bera saman það verð sem við fáum, heildartöluna, kjöt sem er flutt út eða það sem við seljum hérna innan lands. Ég lít þannig á að með útflutningi erum við þó að gera tvennt, við erum að skapa störf hér á landi og styðja við landbúnað og um leið að skapa gjaldeyri. Okkur hefur ekki veitt af honum hingað til.

Ég hvet menn náttúrlega til að samþykkja þennan samning og þetta nefndarálit okkar. Það má vel vera að markaðshyggjuvinstrimönnum finnist þetta há tala, 13–14 milljarðar í stuðning við landbúnaðinn, en það verður þá bara svo að vera.