145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[21:05]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég veit að það stendur skýrt að Alþingi þarf að greiða atkvæði um samninginn eftir þrjú ár, þannig að ég veit ekki hvernig hægt er að hafa það skýrara. Það stendur bara að það þurfi að samþykkja hann. Það var það sem nefndin hnykkti á í því efni. Okkur þótti endurskoðunin svolítið loðin. Í samningnum var talað um að það ætti að endurskoða hann en það var ekkert um afleiðingarnar, hvernig bregðast ætti við því. Ég er sannfærður um að það eru Alþingi og bændur. Það er ekkert víst að bændur samþykki þetta svo.

Mig langar að spyrja hv. þingmann í leiðinni: Er hann sáttur við þessar tölur, þessi útgjöld? Eru það tölurnar sem pirra hann? Finnast honum þetta háar tölur, 13,7 milljarðar á árinu 2017, sem verður svo komið niður í 13,6 milljarða árið 2019? Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvort það eru upphæðirnar sem pirra hv. þingmann. Mér þætti gaman að fá svar við því.