145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[21:18]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að biðjast afsökunar á því að hafa talað óskýrt. Það sem ég á við með gjaldeyristekjum er hvað það kostar mikinn gjaldeyri að framleiða hvert kíló af kindakjöti, nautakjöti, fuglakjöti. Hvað kostar það, (Gripið fram í.) miðað við hvað við förum með út? Ég geri ráð fyrir að þessar kostnaðartölur séu inni í reikningsdæminu sem hv. þingmaður var með. Ég hugsa um gjaldeyrishliðina, hvað við hugsum okkur sem eitt fyrirtæki, Ísland, hvað við flytjum út, það eru tekjurnar og kostnaðurinn er það sem við flytjum til landsins. Þannig hugsa ég það.

Varðandi samkeppnina og undanþáguna reyndi ég að benda á það að hjá Örnu eru þeir ekki tilbúnir að safna mjólk og skylda sig til að kaupa mjólk af öllu landinu eða skuldbinda sig til að vera með birgðir fyrir þessa og hina. Þeir eru mjög sáttir við að geta hringt og pantað hráefnið í framleiðslu sína. Mér finnst ekki sanngjarnt að þeir geti þá hrópað að það sé ósanngjarnt að hygla þeim aðila sem skuldbindur sig til að safna allri mjólk hvar sem er á landinu og vera með svo og svo miklar birgðir. Það kostar. Mér finnst alveg sanngjarnt að þeim sé hyglað. Við hyglum erlendum kvikmyndatökumönnum, það finnst öllum allt í lagi. Mér (Forseti hringir.) finnst það bara gott. Við getum alveg hyglað mönnum fyrir skyldur sem þeir taka á sínar herðar.