145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[21:20]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Í framsögu sinni fyrir meirihlutaáliti atvinnuveganefndar sagði hv. þm. Haraldur Benediktsson að landbúnaður væri 1% af vergri þjóðarframleiðslu og matarútgjöld væru 6% af útgjöldum heimilanna. Hann sagði þetta einhvern veginn í sömu andrá. Og sagði að vafalaust yrðu miklar umræður um þetta mál hér í dag, þingið eyddi miklum tíma í að ræða landbúnaðarmál og búvörusamninga.

Ég átta mig ekki alveg á hvort hv. þingmaðurinn var að segja að þetta væru ekki veigamiklar stærðir og verðskulduðu ekki miklar umræður í þinginu. Að þingmenn sem væru andsnúnir þessum samningum væru að gera úlfalda úr mýflugu. Ég átta mig ekki alveg á hvort þetta var boðskapurinn. En einhvern veginn fannst mér það nú samt.

Hv. þm. Páll Jóhann Pálsson spurði hér í dag: Finnst ykkur þessi upphæð há? 13–14 milljarðar á ári? Já, af því að við þetta bætist ýmislegt. Verið er að gera samning til tíu ára sem með öllu talið er upp á nálægt 200 milljörðum. Já, mér finnst þetta háar upphæðir, alveg eins og flokksbróðir minn hv. þm. Árni Páll Árnason sagði áðan, fyrir samning sem er gamaldags og virðist ekki vera til þess fallinn að framþróun verði í þeirri mikilvægu grein sem landbúnaðurinn er í þessu landi. Fram hefur komið fyrr í dag að þetta er allt annar samningur en sá sem kynntur var í upphafi árs. Hv. þm. Haraldur Benediktsson sagði það ekki í ræðu sinni í dag. Hann sagði að þetta væri umbylting á samningum við bændur. Samningurinn sem kynntur var í janúar, sá samningur sögðu mér menn sem eru miklu fróðari en ég um þessi málefni að væri byltingarkenndur en síðan var þeim samningi breytt. Þessi er ekkert byltingarkenndur. Þess vegna vil ég meina að hv. þm. Haraldur Benediktsson hafi talað mjög misvísandi hér í dag.

Nú boðar atvinnuveganefnd eitthvað sem kallað er þjóðarsamtal. Það á að fara fram núna eftir að samningurinn hefur verið gerður. Ætlast er til að þingið samþykki þennan samning og síðan á að fara í eitthvert þjóðarsamtal. Eftir þrjú ár á því þjóðarsamtali að vera lokið og þá á eitthvað að gerast. En það er mjög óskýrt hvað á að gerast þá. Fram hefur komið í ræðum manna hér og andsvörum fyrr í dag að það er mjög óklárt hvað nákvæmlega eigi að gerast eftir þrjú ár.

Hv. þm. Haraldur Benediktsson, framsögumaður meirihlutaálitsins, svaraði spurningu um hvort það væri alveg ljóst að samningurinn gilti bara til þriggja ára og hvort við gætum þá samþykkt annan samning, Alþingi Íslendinga eða ríkið, og sagði sisvona: Ríkið getur alltaf farið inn í búvörusamninga og hefur alltaf gert það. Það er einmitt þetta sem er svo óskýrt. Ég held að þetta þjóðarsamtal og að samningurinn sé til þriggja ára, þótt hann sé til tíu ára, sé bara einhver barbabrella. Barbabrellur eru þannig að þær eru svolítið sniðugar. Þegar menn eru að reyna að slá ryki í augu fólks um þennan tíu ára samning, sem menn eru núna meira að segja farnir að tala um hvort standist stjórnarskrá að gera samning af þessu tagi til svo langs tíma, þá er bara með barbabrellu verið að reyna að segja: Nei, þetta er ekki tíu ára samningur heldur þriggja ára. Svo geta menn ekki einu sinni svarað hreint út hvort heldur er. Reyndar er það líka þannig að við þingmenn Samfylkingarinnar með hv. þm. Kristján Möller í fararbroddi flytjum breytingartillögu þar sem kemur skýrt fram að gildistími samningsins sé þrjú ár. Ef það verður samþykkt er enginn vafi á því.

Ég vil nú víkja orðum að því sem kom fram fyrr í dag í máli hv. þm. Sigríðar Andersen. Henni fannst það eitthvað skrýtið að við værum til í að samþykkja samning til þriggja ára ef okkur fyndist samningurinn allur vondur. Ég segi: Það er þó skárra að vondur samningur gildi bara í þrjú ár heldur en tíu. Þess vegna er þessi breytingartillaga flutt og vonandi verður hún samþykkt og menn ganga þá hreint til verks.

Síðan kemur mantran um að þeir sem gagnrýna samninginn séu á móti stuðningi við bændur. Svo er flutt ræða um að akurlendi sé betra í Frakklandi en hér. Vissulega er það. Enda er enginn að tala um að ekki þurfi að styðja við landbúnað í landinu. Það er spurning um hvernig það sé gert. Í því liggja mótmæli okkar um þetta. Ég tel að það ætti að gera það þannig að veittir væru byggðastyrkir og bændur gætu sjálfir ráðið hvað þeir framleiddu og að ríkið væri ekki að fara svona inn í framleiðslugreinina eina og eina fyrir sig. Það er einfaldlega þannig sem ég tel að þessir samningar og styrkir við bændur ættu að vera.

Auðvitað er ekki allt alvont í þessum samningi. En í heild sinni, eins og stundum er sagt, þegar samningurinn er allur skoðaður er þetta vondur samningur. Það breytir því ekkert þó að leyfður verði innflutningur á einhverjum sérstökum ostum og úthlutun kvóta af þeim ostum eigi að fara fram með hlutkesti. Úthlutun á öðrum kvótum er háð uppboði eins og verið hefur. Þetta er bara dúsa sem er veifað hér framan í fólk.

Ég lýsti því í 1. umr. um búvörusamningana og ætla að koma inn á það aftur að mér finnst mjög skrýtið að það sé ekki einhvern veginn reynt þegar gerðir eru svona stórir samningar að stýra því svolítið hvar hver tegund landbúnaðar er stunduð. Ég segi hreinlega, ég er ekki þeirrar skoðunar að mjög skynsamlegt sé að sækja mjólk þrisvar í viku eða hvað það er á afskekktustu bæi landsins. Ég tel að búsetu á slíkum stað ætti að styrkja öðruvísi en að keyra þangað mjólkurbíla. Ég vil líka vitna í orð Snorra Baldurssonar, formanns Landverndar, þar sem hann fjallar um sauðfjárræktina. Snorri segir í grein sinni, með leyfi forseta:

„Margir hafa gagnrýnt búvörusamningana undanfarið á efnahagslegum forsendum sem von er. Færri hafa haldið til haga þeirri staðreynd að sá hluti þeirra sem fjallar um starfsskilyrði sauðfjárræktar festir í sessi algerlega ósjálfbæra landnýtingu á þeim svæðum landsins þar sem afréttir eru verst farnir. Þessi svæði eru einkum á gosbeltinu á Mið-Suðurlandi og í Þingeyjarsýslum. Þar er gróðurhulan aðeins brot af því sem hún gæti verið miðað við ríkjandi loftslagsskilyrði, víða langt innan við 10%.“

Samningurinn gerir ráð fyrir að þessu verði bara haldið áfram. Í stað þess, eins og nefnt hefur verið hér í umræðunni áður, að reyna að beina sauðfjárræktinni, eins og í Húnavatnssýslu sem þyrfti miklu meira á því að halda. Ekkert slíkt er gert í þessum samningum.

Ég vil líka aðeins koma inn í umræðuna sem var á milli hv. þm. Kristjáns Möllers og Páls Jóhanns Pálssonar áðan um umframmagnið á lambakjöti sem er flutt úr landi. Ég man þá tíð, því að ég er ekki fædd í gær, þegar við greiddum útflutningsbætur á lambakjöt. Ég er svolítið hrædd um að við séum að fara inn á þá braut aftur. Við ætlum að borga styrki til sauðfjárbænda, þeir framleiða miklu meira en við getum torgað hér og jafnvel allir ferðamennirnir, því að útlendingum finnst lambakjötið ekki jafn gott og okkur, og ætlum að borga framleiðsluna úr ríkissjóði. Þetta finnst mér ekki gáfulegt.

Ég ætla að víkja aðeins að Mjólkursamsölunni, því fyrirtæki sem sektað var um hundruð milljóna vegna samkeppnisbrota. Menn skyldu athuga að alltaf er verið að tala um að Mjólkursamsalan sé undanþegin samkeppnislögum. Hún er það vissulega um framleiðsluna og annað. En hún er það ekki þegar hún er markaðsráðandi á markaði. Ekki um það hvernig hún hagar sér á markaðnum gagnvart öðrum, eins og Örnu eða Kú. Þá tekst Mjólkursamsölunni að brjóta svo þau samkeppnislög sem þó ná yfir hana að hún er sektuð um mörg hundruð milljónir og forstjórinn segir bara að neytendur muni borga það. Við þingmenn Samfylkingarinnar flytjum tillögu um að undanþága MS frá samkeppnislögum falli algerlega brott.

Mig langar aðeins að vitna í þann hluta samkeppnislaganna sem þó ná yfir Mjólkursamsöluna. Mig langar í því sambandi að vitna í grein eftir Bolla Héðinsson hagfræðing en hann segir, með leyfi forseta:

„Hvað þætti okkur um ef t.d. bakarar, tölvufyrirtæki eða bílasalar gerðu slíkt hið sama, þ.e. komi „sér upp samvinnu um fyrirtæki […] til að annast milligöngu og vinna afurðir á eins hagkvæman og ódýran máta og mögulegt er fyrir sjálfa sig og neytendur““ — í þessu er Bolli að vitna í grein eftir hv. þm. Ögmund Jónasson og svo heldur Bolli áfram: — „og nytu til þess stuðnings ríkisvaldsins með undanþágu frá samkeppnislögum? Þetta hljómar e.t.v. ekki illa á pappír en trúir því nokkur að ríkisvernduð einokun færi neytendum þá fjölbreytni, verðlag og þjónustu sem almenningur gerir kröfur um?“

Nei. Þeir sem þekkja til eiga að vita að það er ekki. En það er mannlegt og kannski líka eðlilegt að þeir sem njóta sérréttinda reyni að halda þeim. Þetta á við um hvaðeina, ekki síst talsmenn atvinnugreina sem njóta verndar. Þegar afnema á slíka vernd er söngurinn sá að atvinnugreinin sé svo sérstök að hún geti ekki staðið ein og óstudd. Það verður að vera rekstraröryggi til langs tíma, segja menn. Fjárfesting er svo dýr og öruggt þarf að vera að hún komi öll til baka, halda þeir áfram.

En það er einmitt þetta sem þeir sem ekki er í sérstöku verndarumhverfi þurfa að gera. Reynslan í þessu máli sýnir að frelsi og samkeppni í atvinnurekstri leiðir til hagræðingar, betri rekstrar og lægra verðs sem er allt neytendum til góða. Hið sama á við um mjólkuriðnað, virðulegi forseti. Þar með hef ég lokið máli mínu.