145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[21:40]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef eins og hv. þingmaður setið í stjórnarskrárnefnd og verið umhugað um fullveldi Alþingis. Ástæðan fyrir því að ég kveð mér hljóðs til að varpa þessari spurningu til hv. þingmanns, sem hefur komið mjög að málefnum stjórnarskrárinnar, er sú að ýmsir sem ekki tilheyra stjórnmálahreyfingu okkar hafa sett fram viðhorf af þessu tagi. Einn þeirra sat löngum í stjórnarskrárnefnd. Hann var þar reyndar í krafti þess að hann var lögfræðingur og er, en sömuleiðis hafði hann gegnt mikilvægasta embætti framkvæmdarvaldsins, hann hafði verið forsætisráðherra. Hann hafði líka verið formaður stjórnmálaflokks sem þá var ótvírætt stærsti stjórnmálaflokkur þjóðarinnar. Það er Þorsteinn Pálsson sem ég á hér við. Hann hefur sett fram rökstudda gagnrýni á það framsal valds Alþingis til Bændasamtakanna sem fælist í því að samþykkja samning af þessu tagi til tíu ára. Hann er t.d. þeirrar skoðunar að að samningnum samþykktum væri Alþingi í reynd búið að gangast undir að það mundi ekki til að mynda afnema þá undanþágu frá samkeppnislögum sem mjólkuriðnaðurinn nýtur í dag. Þetta finnst mér vera ótrúlega langt seilst til þess að selja vald frá Alþingi. Ég hef alltaf staðið vörð um fullveldi þess. Þetta er eitt af því sem þarf að skoða. Hv. þingmaður er bersýnilega í vafa um það, þrátt fyrir sérþekkingu sína á stjórnarskránni, hvort þessi gerningur standist hana. Hún varpar fram þeirri hugmynd að á milli umræðna verði það skoðað í nefndinni. Ég varpa þá fram annarri hugmynd sem er þessi: Þingið hefur sérstaka nefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, m.a. til að skoða hluti af þessu tagi. (Forseti hringir.) Þetta kynni nú að vera mál til þess að vísa til félaga Ögmundar Jónassonar, hv. þm. og formanns þeirrar nefndar, sem og nefndarinnar allrar.