145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[21:43]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var svo sem eftir mér sem var fyrsti formaður þessarar nefndar, stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að gleyma því að auðvitað hlýtur að vera sjálfsagt mál að biðja þá nefnd að skoða þetta. Ég held að hún mundi þá væntanlega gera það með því að kalla til prófessora í stjórnskipunarrétti og fá álit þeirra á þessu. Það er áhyggjuefni eitt og sér hversu þessi virðulega samkoma, Alþingi Íslendinga, hefur stundum verið tilbúin að láta aðra ákveða hlutina fyrir sig. En stundum er það þannig að það virðist alveg augljóst að það sé hagkvæmara, betra. Alþingi er þungt í vöfum og á náttúrlega ekki að fjalla um nema hin stóru mál. En búvörusamningur til tíu ára, og búvörusamningar almennt, eru eitt af hinum stóru málum þó að mér hafi fundist hv. þm. Haraldur Benediktsson gera svolítið lítið úr því í dag, þessir samningar væru ekki stórmál. En þeir eru það. Vissulega þarf að kanna hvort Alþingi Íslendinga sé að setja frá sér of mikið vald til Bændasamtakanna.