145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[21:50]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki sérfræðingur í stjórnarskránni en þetta með að vera tíu ára eða þriggja ára samningur — kannski gengur þetta ekki, ég skal ekki segja um það. En ég stend í þeirri trú. Menn samþykkja hér frumvörp og þingsályktunartillögur með alls konar fyrirvörum. Það segir bara hérna að meiri hlutinn leggi áherslu á að við samþykkt frumvarpsins nú séu fyrstu þrjú ár samningsins staðfest og mörkuð framtíðarsýn til tíu ára. Þessi framtíðarsýn, þar er akkúrat eins og hv. þingmaður nefndi einhvers konar byggðaáætlun. Það er staðfesting á þremur árum og svo tekið á því að Alþingi þarf að staðfesta framhaldið. Þetta er eins konar byggðaáætlun, eins konar samgönguáætlun, þannig að menn hafi einhverja framtíðarsýn sem er þá í endurskoðun. Ég held að við séum býsna sammála, ég og hv. þingmaður. Ég get ekki séð annað. Hún vill leggja sérstaka áherslu og stýra styrkjunum í kornrækt og væntanlega einhverja lífræna ræktun. Það er akkúrat það sem stendur í þessum samningi, sem er kannski meginþemað, að stýra greiðslunum meira út í svoleiðis ræktun og víkka út. Þetta er ekki bara lambakjöt og mjólk sem er verið að greiða. Ég fagna því að við séum nokkurn veginn á sömu blaðsíðu. En eins og ég segi, ef hv. þingmaður er svona góð í stjórnarskránni, getur hún ekki fallist á að við getum samþykkt þennan samning með fyrirvara um að Alþingi þurfi að staðfesta hann aftur eftir þrjú ár?