145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[21:54]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég var nú svo glaður þegar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leit hérna við í kvöld að ég bað aftur um orðið, hafði áhuga á því að halda áfram umræðum og eiga eftir atvikum orðastað við ráðherra, gerði mér líka vonir um að hann mundi kannski taka til máls enda hafði þá enginn framsóknarmaður talað. Nú hefur hv. þm. Páll Jóhann Pálsson talað og er það vel. Það er þó umhugsunarvert og kannski tímanna tákn að hér hefur staðið umræða um búvörusamning og landbúnaðarmál í heilan dag og komið langt fram á kvöld þegar fyrsti framsóknarmaðurinn talar.(Gripið fram í.)

Ég ætla að staldra aðeins við nefndarálit meiri hlutans þar sem fjallað er um tollasamninginn sem var reyndar tilefni orðaskipta fyrr í kvöld og hv. þm. Sigríður Á. Andersen taldi að kæmi þessu máli, búvörusamningi, ekkert við, en meiri hluti atvinnuveganefndar er annarrar skoðunar því í nefndaráliti hans um búvörusamning er ítarleg umfjöllun um tollasamninginn. Ég hafði haft ástæðu til að ætla að meiri hluti atvinnuveganefndar ætlaði að taka undir tillögu sérstakrar nefndar sem skipuð var í aprílmánuði sl. af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að skoða áhrifin af innleiðingu tollasamningsins og kostnaði sem lendir á búgreinunum vegna nýrra aðbúnaðarreglugerða og dýraverndarsjónarmiða. (ÖS: Sem hann sjálfur gerði.) Nefndin lauk svo störfum og skilaði tillögum til ráðherrans. En ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég sá endanlega útgáfu nefndarálits meiri hluta atvinnuveganefndar. Nú er skaði að formaður nefndarinnar eða framsögumaður málsins skuli ekki vera hér. Ég hefði viljað fá skýringar á því af hverju endanleg útgáfa nefndarálitsins varð allt í einu þannig að dregið er mjög í land af hálfu meiri hluta atvinnuveganefndar hvað varðar stuðning við að þessar aðgerðir komi til framkvæmda. Almennt hafa menn litið svo á að þetta væru lágmarksaðgerðir til að búa til örlítið skjól fyrir greinarnar sem verða fyrir mestum áhrifum af innleiðingu tollasamningsins. En hér er dregið mjög í land með það.

Meiri hlutinn segir að mikilvægt sé að ráðherrann gaumgæfi tillögur starfshópsins og leiti leiða til að koma til móts við þær athugasemdir. Það er ekki mælt með því að farið verði að tillögunum. Nei, og svo er sagt: Meiri hlutinn gerir nokkrar athugasemdir við tillögur hópsins. Allt svo, meiri hluti atvinnuveganefndar tekur það að sér að tala að hluta til niður tillögur starfshópsins sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði og fékk í sínar hendur. Hvers vegna? Telur hann ekki þörf á því? Er það niðurstaða meiri hluta atvinnuveganefndar að þetta sé óþarflega rausnarlegt, ekki sé þörf á þessum lágmarksaðgerðum til að búa til örlitla aðlögun og skjól fyrir greinarnar sem verða fyrir mestum áhrifum; svínarækt, alifuglarækt, nautakjötsframleiðslu og eftir atvikum hluta af ostaframleiðslu mjólkuriðnaðarins?

Ég hefði viljað fá skýringar á hvers vegna þarna er dregið í land. Menn skjóta sér á bak við það að ný lög um opinber fjármál banni að eyrnamerkja fjármuni t.d. sem kæmu af uppboðum tollkvóta. Það er einfalt ráð til við því. Þá er bara sagt að menn samþykki að taka mið af þeim tekjum sem ríkið fær þannig. Engin eyrnamerking. Bara pólitísk viljayfirlýsing um að u.þ.b. sambærilegum fjármunum verði varið til aðlögunar fyrir greinarnar. Það þýðir ekkert að bera svona lagað á borð fyrir gamlan fjármálaráðherra. Þetta er kjaftæði og aumingjalegur útúrsnúningur undan því að það stendur greinilega ekki til að setja krónu í viðbót í þetta. Ég mun að öðru leyti fara betur yfir þetta þegar tollasamningurinn verður ræddur hér væntanlega á morgun eða einhverja næstu daga.

Við þingmenn VG höfum fjallað mikið um umhverfishlið þessa máls og það gerum við vegna þess að við höfum mikinn metnað fyrir hönd landbúnaðarins í þeim efnum og við viljum sjá hann grænka og verða fullkomlega sjálfbæran þannig að við getum öll verið stolt af honum að öllu leyti þannig. Þá vil ég ekki að það misskiljist sem svo að við séum ekki okkur vel meðvituð um að margt er þegar mjög vel gert í þeim efnum. Það er kannski ástæða til að fara aðeins yfir það, það eru nú ekki margir hér sem tala í sjálfu sér máli landbúnaðarins af einhverjum myndugleik, það er óskaplegt væl í gangi í umræðunni út og suður. Við eigum auðvitað að vera stolt af íslenskum landbúnaði og því sem þar er best gert. Þar koma umhverfismálin við sögu. Ég hef fylgst með því í áratugi hvernig orðið hefur vitundarvakning í sveitum landsins varðandi það að græða landið. Bæði er það í gegnum samstarfið við Landgræðsluna, Bændur græða landið, þar sem menn hafa líklega grætt upp eina 35 þúsund hektara ógróins lands á síðustu árum og í gegnum gæðastýringarátakið hafa hundruð þúsunda hektara verið í skjóli í gegnum það fyrirkomulag. Ég hef fylgst með því hvernig bændur sjálfir á eigin kostnað fara með húsdýraáburð, moð og jafnvel aðkeyptan áburð og græða upp í sínum heimalöndum þannig að það hefur orðið bylting sums staðar að sjá heiman frá býlunum um gróið land.

Gæðastýringin eins og hún var innleidd í sauðfjárræktinni hefur að sjálfsögðu skipt miklu máli og hefur leitt af sér miklu betra utanumhald utan um beitarmálin, skýrsluhald, lyfjabókhald og margt fleira. Það er ágæt þróun í sambandi við upprunamerkingar og loksins er að komast skriður á þau mál sums staðar, meira að segja hjá stórum afurðastöðvum. Það er ekki bara lengur beint frá býli í einstökum tilvikum. Mitt ágæta fyrirtæki Fjallalamb er núna að bjóða upp á það að selja sínar vörur þannig að þær eru algerlega upprunamerktar niður á býli og maður getur bara valið að kaupa af hvaða bæ sem er á svæði Fjallalambs og séð myndir af búinu og fengið ýmsar upplýsingar um það við hvaða aðstæður framleiðslan verður til.

Þá vil ég nefna hina ágætu ákvörðun sauðfjárbænda en Samtök sauðfjárbænda hafa samþykkt og mótað þá stefnu að bann verði lagt við notkun erfðabreyttra nytjaplantna og erfðabreytts fóðurs. Þau vísa m.a. til fordæma Rússa í þeim efnum. En sá merki atburður gerðist að Pútín nokkur kom fram og tilkynnti um að Rússar hefðu sett á bann við notkun erfðabreyttra nytjaplantna í fóður. (Gripið fram í.) Varla getum við viljað verið eftirbátar þeirra í þessum efnum. Þetta er mjög merkileg þróun. Þarna hygg ég að sauðfjárbændur séu í fararbroddi af greinum landbúnaðarins.

Að sjálfsögðu er þetta gríðarlega mikilvægt og við eigum að gleðjast yfir því ef þetta bætist við — eða ef, við skulum ekki segja ef heldur þegar — þegar þetta bætist við það gæfuspor að banna notkun hormóna og vaxtarhvetjandi efna á sínum tíma, bætist við það að lyfjanotkun er mjög lítil og undir mjög ströngu eftirliti í íslenskum landbúnaði, ekki notuð vaxtarhvetjandi lyf o.s.frv. Ef kæmi svo bann við erfðabreyttum plöntum í fóður þá væri íslenskur landbúnaður kominn ansi langt í það að verða u.þ.b. eins sjálfbær og hreinn og hann getur orðið og svo auðvitað í vaxandi mæli vonandi alveg lífrænn. Ef því fylgdi myndarlegt átak í orkuskiptum í landbúnaði, stuðningur við það að menn færðu sig eins mikið og mögulegt væri úr jarðefnaeldsneyti yfir í t.d. rafmagn framleitt í heimarafstöð, þá gætum við virkilega farið að sýna glæsilega framleiðslu í þessum efnum.

Við eigum gríðarleg verðmæti í íslenskum landbúnaði að þessu leyti og er allt í lagi að muna eftir því þegar við ræðum hér búvörusamning og stuðning við innlenda landbúnaðarframleiðslu. Ég tek undir með framsögumanni að sá stuðningur er náttúrlega ekki orðinn stór í hinu þjóðhagslega samhengi, beinn ríkisstyrkur upp á kannski 0,6% af vergri landsframleiðslu, 13, 14 milljarðar eru um 0,6–0,7% af vergri landsframleiðslu í dag. Það eru liðlega 2% af niðurstöðutölu fjárlaga. Það er ekki mikið í sjálfu sér borið saman við hversu mikið í reynd við fáum í formi matvælaöryggis, þessarar heilnæmu vöru, í formi þúsunda og aftur þúsunda afleiddra starfa og heilmikilla umsvifa á þjónustu sem þessu tengist. Þetta gleymist oft. Ef einhvers staðar á að setja niður nýja fabrikku þar sem kannski eiga að vinna 100–200 manns þá blása menn alltaf út í umræðunni öll afleiddu störfin og segja: Já, já, svo koma svo mörg afleidd störf og svo mikil umsvif í kringum þetta.

Það má kannski nefna þegar landbúnaðurinn á í hlut að hann er þrátt fyrir allt býsna stór í landsframleiðslunni vegna þess að honum tengist tiltölulega hátt hlutfall starfa. Þetta er almennt mannaflafrekar greinar sem þjónusta landbúnaðinn, vinna úr afurðum hans o.s.frv. Í ákveðnum byggðarlögum er þjónustuúrvinnslan og þjónustuiðnaðurinn í raun kjölfestan í þéttbýlinu þar sem landbúnaðurinn ber upp byggðina í sveitunum. Allt þetta eigum við að hafa í huga þegar við fjöllum um þessi mál.

Enn hef ég klárað nokkurn veginn ræðutímann án þess að komast að ráði í það sem ég hafði ætlað mér að koma að, þ.e. ræða betur samspil búvörusamningsins og tollasamningsins, en ég mun þá bara snúa því við og fara í það síðar þegar við ræðum tollasamninginn sjálfan, því að auðvitað þarf að skoða stóra heildarsamhengið í þessu.