145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[22:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get með engu móti fallist á að allir þeir sem talað hafa hafi verið með eitthvert væl fyrir hönd landbúnaðarins. Að minnsta kosti vil ég fyrir hönd landbúnaðarvængs Samfylkingarinnar lýsa því alveg skýrt yfir að ég hef fulla trú á honum og ég hef haldið hér margar ræður og hefur jafnvel glitt í það hér í stuttum andsvörum mínum í dag að ég hef trú á þeim möguleikum sem þar eru fyrir hendi. Ég hnaut um að hv. þingmaður vísaði til leiðtoga annars ríkis, Pútíns, forseta Rússlands, sem hefði beitt sér fyrir því að útrýma eða a.m.k. leiða í lög að ekki yrðu notaðar erfðabreyttar jurtir eða efni í landbúnaði. Hér á Íslandi er það þannig að við höfum ekkert slíkt bann. Það vantar meira að segja algjörlega umræðuna um þetta.

Sú sylla sem íslenskur landbúnaður kann að finna á erlendum markaðssvæðum er einmitt syllan þar sem menn fara til þess að leita sér að einhverju sem er tárhreint, að matvælum sem eru alveg laus, eða eins laus og hægt er að votta, við notkun sýklalyfja, eiturefna og ýmislegs annars sem menn vilja síður hafa í þeim mat sem þeir borða. Við vitum það líka að eitt af því sem hefur breyst í umræðunni er þetta: Ef erfðabreytt efni eru notuð vill stór hópur manna ekki kaupa slíkar vörur af ýmsum ástæðum. Ég tel að þá umræðu þurfi að taka.

Það sem ég sakna, alveg eins og hv. þingmaður, í þeim búvörusamningi sem við ræðum hér er stefna um að gera íslenskan landbúnað sýnilegan sem hreinustu framleiðslu af landbúnaðarvarningi sem hægt er að hugsa sér. Á því á markaðssóknin að byggjast. En ég verð hins vegar var við það, því að ég hef örlítið skrifað um þetta á litla síðu sem ég held úti, að það er mikil andstaða við það. (Forseti hringir.) Við þurfum að taka þá umræðu. Hv. þingmaður hlýtur að vera mér sammála um að hana hefði þurft að taka áður en þessi (Forseti hringir.) samningur kom hingað. Það er enn eitt dæmi um slugsið af hálfu þeirra sem þarna héldu um stjórnvöl.