145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[22:06]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst aðeins mér til yfirbótar. Ég held ég hafi nú ekki sagt að allir hafi verið með væl. Ég sagði að það hefði verið þó nokkurt væl í sumum ræðum, eða ég átti við eitthvað svoleiðis, þ.e. mér fannst menn dvelja mikið við vandamálin og erfiðleikana og ekki voru nú allir neitt glaðbeittir fyrir hönd íslensks landbúnaðar inn í framtíðina. Ég fagna öllum þeim sem koma hér og halda innblásnar ræður trúaðir á það.

Varðandi erfðabreyttu matvælin og almennt þá umhverfishlið landbúnaðarins er ég alveg gífurlega áhugasamur um að við þróum það mál áfram og hefði einmitt verið glæsilegt að gera það. Segjum nú að menn hefðu verið að leggja grunn að því og innan þessa tíu ára tímabils gerðu menn íslenskan landbúnað í heild sinni algjörlega lausan við slíkt, að menn bönnuðu notkun á fóðri með erfðabreyttu innihaldi. Það væri glæsilegt. Það er í raun aðallega það eitt sem vantar til þess að landbúnaðurinn á Íslandi geti nánast fullkomlega sagt: Þessi mál eru til fyrirmyndar á allan hátt hjá okkur vegna þess að við höfum fyrir bann við hormónum og vaxtarhvetjandi lyfjum, við höfum fyrir einhverja minnstu sýklalyfjanotkun og besta eftirlit með lyfjanotkun sem fyrir finnst og erum þar í sérflokki með Svía og Finna við hliðina á okkur og eigum bara erfðabreyttu efnin eftir.

Ég veit að ég þarf ekki að kenna hv. þingmanni það, en það er samt ágætt að rifja upp hvernig umræðan er að þróast núna um notkun þessara erfðabreyttu nytjaplantna. Þær eru ekki síst breyttar til þess að þola mikla eiturefnanotkun. Þær eru þolnar gagnvart því að skordýraeitri sé úðað yfir akrana. Hvað gerist á 10–15 árum? Skordýrin þróa þol gegn eitrinu. Hvað gera menn þá? Auka eiturskammtinn. Og fyrirtæki eins og Monsanto og fleiri eru í fararbroddi í þessum heldur félega verksmiðjubúskap, eða hitt þó heldur. Nú er almenningsálitið úti um allan heim sem betur fer að snúast gegn þessu.

Ég er algerlega sammála hv. þingmanni, þarna liggur ekki bara sylla (Forseti hringir.) heldur að mínum mati heilt bjarg fyrir íslenskan landbúnað til að standa á, þannig að menn færu að streyma til landsins í því (Forseti hringir.) skyni einu að fá að borða hér mat ef okkur tækist að koma því nú rækilega á framfæri hvað hann er í raun og veru hreinn.