145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[22:09]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki oft sem ég áfellist hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, sem ég nota að mörgu leyti sem námu fróðleiks og oft til þess að bæta mínar eigin ræður, en komið hefur í ljós að hv. þingmanni hefur skjöplast, hann hefur greinilega ekki lesið grein mína „Landsímynd sem eflir útflutning“. Það var langhundur sem birtist í Morgunblaðinu og vakti m.a. nokkra athygli hjá bændaforustunni vegna þess að þar var landbúnaðurinn tekinn og hafinn upp og bent á möguleikana sem felast í hreinleika hans. Akkúrat sú framleiðsla sem byggir á þeim hreinleika var í þessari grein talin ein af burðarstoðum fyrir landsímynd sem eflir útflutning.

En ég er alveg sammála hv. þingmanni um að ef það er neikvæður tónn í umræðu um landbúnað er það fyrst og fremst vegna þess að stjórnvaldið, þeir sem fara með málaflokkinn, eru ekki stoltir fyrir hönd íslensks landbúnaðar og sjá aldrei tækifærin sem í honum byggja. Framsóknarflokkurinn, sem lítur á sig sem einhvers konar sjálfskipaðan talsmann bænda og sumir hafa í of ríkum mæli hyllst til þess að álíta hann vera það fyrir þeirra hönd, er alltaf með höfuðið í klofinu fyrir hönd íslensks landbúnaðar. Hann hefur áratugum saman byggt hér upp kerfi sem mér finnst hafa njörvað framtakið og frumkvæðið í landbúnaðinum og komið í veg fyrir það sem maður sér stundum glitta í hjá ungum bændum að gæti leitt til nýrra framleiðsluhátta, nýrrar framleiðslu. Það er drepið í viðjar stirnaðs kerfis.

Varðandi síðan varnirnar í landbúnaði gegn skordýrum og gegn ýmiss konar vá má náttúrlega benda á að þó að í litlu sé hefur íslensk ylrækt hefur verið þar í fremstu röð varðandi það að innleiða lífrænar varnir í lokaðri veröld glerhúsanna.

Ég er sem sagt sammála hv. þingmanni um að ég tel að menn hafi (Forseti hringir.) misst af gullnu tækifæri til þess að móta stefnu sem byggir á þeirri sýn.