145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[22:45]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Svarið er einfalt: Af því að það var neyðarástand á Íslandi, (Gripið fram í.) vegna þess að á þeim tíma sem hv. þingmaður nefnir var ríkisstjórnin og samfélagið allt önnum kafið við rústabjörgun, við það að reisa íslenskt samfélag við. Það var þess vegna sem samningurinn var framlengdur frá ári til árs, raunar með þeim hætti að greiðslurnar til bænda voru skertar um 5%, ef ég man rétt, þeim mjög mikils til ama. En þeim til hróss þá féllust þeir á það í samningum gegn því að hann yrði framlengdur, þegar við vorum önnum kafin við það að hluta til í tíð samstjórnar minnar og hv. þingmanns að skera niður alls staðar í samfélaginu. Það var ástæðan fyrir því. Síðan hafa auðvitað orðið veðrabrigði í ýmsum málum, ég á við það að Ísland og aðrar þjóðir hafa tekið höndum saman um að ná ákveðnum markmiðum t.d. í loftslagsvernd. Það gerðist náttúrlega ekki fyrr en í fyrra. Ég sakna þess mjög mikið að þess skuli ekki sjá stað í þeim samningi sem er til umræðu.