145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[22:49]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég bið hv. þingmann afsökunar á því að hafa ekki verið nógu skýr í máli mínu. Það er hins vegar honum að kenna, vegna þess að þegar ég var í upphafi ræðu minnar að byrja þessa lotu atti hann mér í aðrar áttir með frammíköllum. (Gripið fram í.)Við erum ekki fullkomnir. En til að skýra þetta þá er það þannig að ég er þeirrar skoðunar, ef maður lítur alla vega á þau lönd sem við berum okkur saman við, ég tala nú ekki um land eins og Noreg, en bara að meðaltali þá held ég að stuðningurinn við íslenskan landbúnað sé ekkert meiri hér, að minnsta kosti ekki mikið meiri en í flestum þessara landa. Hann er minni en í Noregi, ég veit það, en hann er svona á pari við mörg lönd. Það breytir ekki hinu að vitaskuld eru þetta gríðarlega miklar upphæðir. Það er ekki sama hvernig þeim er varið. Hér er um að ræða, eins og ég nefndi, 200 milljarða á tíu árum. Við þurfum að vera alveg klár á hvernig við notum svona miklar upphæðir og eigum að gera það til að reyna að beina landbúnaðinum í áttir (Forseti hringir.) sem við getum sameinast um að séu heillavænlegri (Forseti hringir.) fyrir hann, fyrir okkur og fyrir umheiminn.