145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[22:58]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst hv. þm. Össur Skarphéðinsson yndislegur maður, bæði góður og fallegur. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í.) Hv. þingmaður sagði að hann væri stuðningsmaður þess að stutt verði við landbúnaðinn, hann sé á landbúnaðarvæng Samfylkingarinnar. (Gripið fram í: Já.) Ég veit að hv. þingmaður er þungavigtarmaður, en er einhver annar í Samfylkingunni á þessum væng? Það er ekki að heyra. (Gripið fram í: Jú, jú.) Ég vil vita, af því að hv. þingmaðurinn sagði að hann væri hlynntur stuðningi, af hverju hann getur ekki greitt atkvæði með þessu máli. Hann taldi upp nokkur atriði (Gripið fram í.) já, sem mér fannst flest frekar klén, sneru svona að umhverfismálum. En er þetta mál samt ekki betra (Forseti hringir.) en núverandi samningar eru? Vill þingmaðurinn frekar framlengja þá eða getum (Forseti hringir.) við ekki einfaldlega samið með öðrum hætti um þessi umhverfismál sem hann ræddi um?