145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[23:02]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Það var nokkur eftirspurn í salnum í kvöld eftir framsóknarmönnum. Ég sé að ánægjusvipur færist yfir hv. þm. Steingrím J. Sigfússon þegar eitt stykki er komið hér í ræðustól. (ÁPÁ: Ekkert smástykki.) Ekkert smástykki, rétt hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni sem ég ætla að upplýsa nú strax um eitt vegna þess að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði það réttilega áðan að umræðan í dag hefði verið nokkuð út um allt og menn hefðu ekki rætt af mikilli skynsemi eða þekkingu á landbúnaði margir hverjir. Mig langaði að nefna það, þótt það sé ekki mitt hlutverk í ræðustól Alþingis að auglýsa einstök fyrirtæki, en ég hjó eftir því áðan í ræðu hv. þm. Árna Páls Árnasonar að hann talaði um að hann þekkti fullt af fólki sem vildi gjarnan kaupa dýrara svínakjöt ef það vissi hvaðan það kæmi. Það er hægur vandi, hv. þingmaður, að verða sér út um slíkt á Íslandi vegna þess að til er t.d. eitt bú á Suðurlandi sem ekki einasta merkir framleiðslu sína nafni fyrirtækisins heldur framleiðir einnig sjálft kornið sem grísirnir snæða. Þetta skal ég upplýsa hv. þingmann um á eftir því að ég vil ekki stunda auglýsingamennsku í ræðustól Alþingis.

Það er kristaltært að sérstaða landbúnaðarframleiðslu og verslunar með landbúnaðarafurðir er mikil og helgast af því að allflestar þjóðir í heiminum styrkja sinn landbúnað á einhvern hátt. Það hefur komið fram í máli nokkurra hv. þingmanna að heildarstuðningur við íslenskan landbúnað með tollaverndinni er í kringum 1% af vergri landsframleiðslu. Þetta hlutfall er á milli 0,8 og 0,9 í OECD-ríkjunum þannig að Ísland sker sig ekki úr. Rétt er það að 13 milljarðar í beingreiðslur eða beina framleiðslustyrki er allnokkur tala. Talan sem Evrópusambandið styrkir sinn landbúnað um er í kringum 8 þús. milljarðar íslenskra króna. Það er fyrir utan svæðisstyrki eins og í Finnlandi og Svíþjóð. Það er ljóst að í harðbýlu landi getum við ekki rekið landbúnað án framleiðslustyrkja. Það er alveg ljóst.

Ég minntist á Evrópusambandið. Það er ekki nóg að gert að þeir hafi greitt 8 þús. milljarða á þessu ári til landbúnaðar heldur sendu þeir hverjum og einum kúabónda í Evrópusambandinu 700 þús. kall þetta ár af því að mjólkurverð féll niður og verð á mjólkurdufti, 700 þús. kall á hvert einasta kúabú í Evrópusambandinu. Þetta er meira en 1/3 af fjárlögum Evrópusambandsins í heild.

Það sem mér finnst hafa vantað dálítið í umræðuna í dag er hvers vegna ríki styrkja landbúnað með framleiðslustyrkjum o.s.frv. Það er gert í þágu neytenda, til að tryggja að neytendur í þessum löndum eigi greiðan aðgang að landbúnaðarvörum á betra verði en ella væri. Í þessu sambandi vil ég minna á mjög glögga grein eftir Marinó Njálsson hagfræðing, sem mig minnir að sé um þriggja ára gömul, þar sem hann fer nákvæmlega yfir þetta mál. Menn segja að það séu skattgreiðendur sem borga brúsann. Það er alveg hárrétt, það eru skattgreiðendur sem borga brúsann. En þá skulum við fara yfir hverjir eru skattgreiðendur vegna þess að það eru ekki nema u.þ.b. 54% sem greiða tekjuskatt á Íslandi, aðrir gera það ekki. Framleiðslustyrkir til landbúnaðar eru í eðli sínu jafnaðartæki til þess að gera þeim kleift að njóta landbúnaðarvara sem minna hafa milli handanna. Þetta er gömul og ný staðreynd hér á Íslandi. Menn ættu ekki að gleyma þessu.

Mig langar líka til að fara yfir framleiðslustyrkina af því að menn hafa farið um víðan völl í umræðunni og rætt bæði tollverndina og styrkina til framleiðslunnar. Ég ætla að reyna að einskorða mig í þessari ræðu við framleiðslustyrkina. Það hefur komið ýmislegt fram í dag í ræðum þingmanna sem ég skil ekki. Ég viðurkenni t.d. að ég skil ekki það sem kom fram hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni í ræðu í dag að í þessum samningi væru ofstjórnartilburðir. Ég átta mig ekki á þessu. Það kom fram svipað sjónarmið hjá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur. Hún sagði að bændur ættu svona út af fyrir sig að geta gert það sem þeim dytti í hug. En hvað sagði hún næst í ræðunni? Nei, það er ekki endilega það besta fyrir bændur að mjólk sé sótt til þeirra á afskekktum svæðum þrisvar í viku. Mér þætti gaman að heyra hvað bóndinn í Botni í Súgandafirði hefur um þetta að segja. Hún sagði líka að það ætti að færa sauðfjárframleiðslu af gosbeltunum yfir í Húnavatnssýslu, en bændur mega samt gera það sem þeir vilja. Hvernig harmónerar þetta saman? Ég átta mig ekki á því.

Það kom líka fram í ræðu eins ágæts þingmanns hér í dag að byggðasjónarmiðin sem hefðu komið fram í landbúnaðarstefnunni á Íslandi árið 1940 hefðu ekki gengið upp af því að setnum lögbýlum á Íslandi hefði fækkað. Þetta eru mikil vísindi. Þetta heitir reyndar framleiðniaukning vegna þess að þó að lögbýlum fækki í einni sveit getur framleiðslan verið meiri en áður. Ég veit að á einu svæði hér á landi hefur t.d. mjólkurbændum fækkað úr 160 niður í 60, en framleiðslan er miklu, miklu meiri hjá þessum 60 en hjá 160 áður. Það er það sama. Þetta er framleiðniaukning og hagræðing.

Eitt af því sem hefur fylgt þessari hagræðingu sem landbúnaðurinn hefur virkilega gengið í gegnum er að sláturhúsum hefur fækkað, afurðastöðvum hefur fækkað. Það kann vel að vera að það skili okkur ódýrari afurðum, en ég verð að viðurkenna að ástandið núna á vesturhelmingi landsins veldur mér miklum áhyggjum. Það er ekkert sláturhús á vesturhelmingi landsins og hvarflar nú hugurinn aftur til Súgandafjarðar. Bóndinn í Vatnadal í Súgandafirði þarf að senda sitt sláturfé á Hvammstanga eða Sauðárkrók, 600 kílómetra leið, og það er verið að keyra fé alla þessa leið. Þetta jaðrar náttúrlega við dýraníð og skilar okkur líka verri afurðum vegna þess að þó að féð fái að vera í rétt yfir nótt þá fer ekki hjá því að það er verið að slátra stressuðum gripum sem skila verri afurðum. Þetta kemur einmitt heim og saman við það sem hv. þm. Árni Páll Árnason sagði réttilega í dag. Auðvitað eigum við að gera þær kröfur að við getum vitað hvaðan varan kemur sem við erum að kaupa.

Þessi samþjöppun á sláturhúsum er t.d. komin fram vegna þess að sláturhús eru nú byggð samkvæmt kröfum Evrópusambandsins sem eru mjög stífar. Sem betur er komin ein undantekning þar frá sem er handverkssláturhús í Skaftafellssýslu. Ég vona eiginlega að einhver slík starfsemi muni koma upp t.d. á vestanverðu landinu þar sem eru afar góðir hagar og sauðfé gengur mjög vel fram og er mjög vænt og kjötið mjög fitusprengt og gott. Auðvitað viljum við geta vitað hvaðan varan er sem við kaupum. Þess vegna er það mjög virðingarverð viðleitni hjá fyrirtæki á Kópaskeri sem er núna búið að gera mönnum kleift að geta vitað hvaðan varan er sem þeir kaupa. Ég held að þarna liggi mikil sóknarfæri fyrir okkur Íslendinga. Sóknarfærin liggja náttúrlega í því að við Íslendingar framleiðum mjög góða vöru. Það er alveg sama hvort við erum að tala um lambakjöt, nautakjöt eða alifugla og svínakjöt og/eða grænmeti. Við notum mjög lítið af sýklalyfjum, við notum nánast engin eiturefni í gróðurhúsum á Íslandi. Þar eru möguleikarnir gríðarlegir.

Ég vil vekja athygli á því að í nefndaráliti meiri hlutans er tekið sérstaklega til þess að við fyrstu endurskoðun samningsins eftir þrjú ár verði hugað að því að hægt verði að auka úrval þess grænmetis sem íslenskir garðyrkjubændur framleiða. Það er mjög algengt finnst mér að menn tali hátt um það hvað garðyrkjusamningurinn hafi tekist vel. Jú, jú, hann hefur tekist ágætlega, málið er hins vegar það að það grænmeti sem ekki féll undir þann samning er jafn rosalega dýrt eða jafnvel dýrara en það var áður vegna þess að menn eru náttúrlega, þ.e. kaupmenn, að bæta sér upp það sem þeir geta ekki lagt á ódýrara grænmeti sem framleitt er innan lands. Þetta þurfum við að setja undir.

Þá getum við komið að öðru máli sem hefur verið hér nokkuð til umræðu, þ.e. samkeppnisþátturinn í landbúnaðarframleiðslunni og undanþága Mjólkursamsölunnar frá samkeppnislögum. Um það vil ég segja að síðan sú undanþága var veitt hefur alla vega tekist það markmið að verð til bænda hefur hækkað og verð til neytenda hefur lækkað verulega. Aftur á móti hafa þeir sem hafa stjórnað Mjólkursamsölunni gegnum árin ekki höndlað það hlutverk sem þeim var fengið með því að losna við samkeppniseftirlit og hafa hagað sér af hreinum tuddaskap gagnvart litlum framleiðendum í tómum óþarfa.

Hitt er svo annað mál að ég er mikill talsmaður þess að taka upp samkeppnislög í landinu yfir höfuð. Líklega verður mér ekki unnt að gera það í núverandi dvöl minni á Alþingi, en ég mun alla vega taka það upp næst þegar ég á leið hér um ef enginn annar gerir það í millitíðinni. Það er eitt að vera á móti því að einn aðili sé með 98% stöðu á markaði eins og Mjólkursamsalan, en ef við ætlum að fara að hrófla við því, og ég er mjög fylgjandi því að skipta upp markaðsráðandi fyrirtækjum, þá leitar hugurinn til stærstu verslunarkeðju á Íslandi sem hefur 60% markaðshlutdeild. Nú þegar sláturleyfishafar hafa lækkað verð til sauðfjárbænda eða tilkynnt um lækkun, þá dettur mér í hug hvort það geti verið að einhverju leyti vegna þess að þeir telji að markaðurinn, þ.e. stórmarkaðirnir, muni ekki taka þeirri lækkun eða taka hækkun á lambakjöti og færa áherslur sínar í framsetningu yfir í aðra vöru.

Þetta kemur heim og saman við það sem ég var að segja um grænmeti og verðmyndun á grænmeti. Stórmarkaðir á Íslandi haga sér þannig gagnvart t.d. kartöflubændum að það er algjör ósvinna, en það er hins vegar ekki hægt að fá bændur til þess að tala um það, ekki undir nafni, af því að þeir óttast það ef þeir segja frá því hvernig þessi meðferð er.

Hér hefur mikið verið talað um gildistíma þessa samnings. Til okkar í atvinnuveganefnd kom sérfræðingur á því sviði sem er kennari í Háskólanum í Reykjavík og lét þess getið að það væri að hennar dómi alveg skýrt að í sjálfu sér væri hægt að taka samninginn upp á hverju ári vegna þess að hann er ævinlega háður fjárlögum hvers árs. Þess vegna gátu menn farið inn í þennan samning árið 2009, reyndar undir mjög erfiðum skilyrðum, og lækkað hann einhliða. Það er alveg skýrt að þó að samningurinn sé tíu ára samningur og ég ætla bara að segja það hér, þetta er tíu ára samningur, en hann er með mjög öflugu endurskoðunarákvæði sem kemur inn eftir þrjú ár og síðan aftur. Það er enginn efi í mínum huga að Alþingi getur haft áhrif á þennan samning tvisvar á þessu tíu ára tímabili. Ég kannast nú við það að menn hafi skuldbundið ríkið til lengri tíma en þetta í stórum málum og enginn hefur kippt sér verulega upp við það. Ég vil minna á að í gildi eru ansi margir 25 ára leigusamningar sem ríkisvaldið gerði á góðæristímanum og ofurseldi ríkisstofnanir í rándýrri leigu með óuppsegjanlegum samningum til 25 ára. Þetta hefur valdið miklum erfiðleikum hjá mörgum ríkisstofnunum. En það er ekki hægt að gera neitt í þessu. Ég tel því að þau ákvæði sem hér eru um endurskoðun eftir þrjú ár standist fullkomlega og haldi algjörlega.

Ég er á sama máli og þeir félagar mínir, hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, ég tel að íslenskur landbúnaður eigi gríðarlega möguleika, ekki síst í því sem við köllum hefðbundinn landbúnað og einnig í þeim búskap sem stundum hefur verið kallaður verksmiðjubúskapur vegna þess að við notum t.d. ekki hormóna, við notum ekki fúkkalyf nema að mjög litlu leyti. Það er líka annað sem fram kom t.d. fyrir nefndinni að á Íslandi á kjúklingabúum er skimað fyrir mörg hundruð tegundum af salmonellu. Það er bara slátrað úr heilum húsum, þ.e. ekki er fyrst slátrað hluta, húsið opnað og slátrað hluta og síðan aftur slátrað hluta. Það er slátrað úr heilu húsi. Þetta tryggir að sjúkdómahættan er í lágmarki. Komi upp salmonellusmit, sem nota bene er mælt í bæði lifandi fugli og eftir að búið er að slátra honum, er öllu partýinu fargað. Í nágrannalöndunum er þetta einfaldlega fryst og selt. Fyrir utan það að við höfum verið laus við, ég held bara að mestu leyti árum saman, kampýlóbakter sem er landlægur sjúkdómur í löndunum víða í kringum okkur. Það er þessi sérstaða sem við eigum að leggja áherslu á og vernda. Við þurfum að gera meira í því að það sé hægt að rekja vöruna, það er alveg tvímælalaust.

En við hvað erum við að keppa? Jú, við erum t.d. að keppa við finnsk svín sem fara til beitar í Póllandi og er slátrað í Þýskalandi og koma aftur til Finnlands og fá finnskt vegabréf. Hvernig eigum við að rekja þetta? Þetta getum við aftur á móti gert hér heima. Þess vegna þurfum við að opna meira á það og jú, í þessum samningi er opnað á það og hvatt til lífrænnar ræktunar sem er sem betur fer orðin vaxandi þáttur mjög víða hér á landi.

Auðvitað eigum við að verðlauna fólk sem stendur í slíkri frumkvöðlastarfsemi, verðlauna fólk eins og Höllu í Fagradal sem er með sitt flotta hvannalamb, auðvitað eigum við að styðja við þetta fólk. Og auðvitað eigum við að styðja við fólk á gisnum svæðum. Það eru fjórir bæir núna að fara úr byggð í Árneshreppi sem verður líklega til þess að sá hreppur fellur. Það er þyngra en tárum taki að keyra um þann hrepp og sjá jarðirnar sem nú verða ekki setnar lengur í vetur. Við eigum að kappkosta, meðan það er vilji þjóðarinnar og Alþingis að landið allt sé byggt, að styðja við harðbýl svæði og tryggja að þar þrífist landbúnaður.

Ég segi aftur: Framleiðslustyrkir í landbúnaði eru ekki síst til þess að tryggja neytendum vöru á góðu verði. Þess vegna keppum við við ódýrar afurðir erlendis frá vegna þess að þær eru styrktar, þær njóta framleiðslustyrkja. Við getum ekki ein þjóða, fyrir utan Nýja-Sjáland og Ástralíu, farið að draga stórlega úr þeim styrkjum sem við beitum hér vegna þess að þessari framleiðsla er þannig fyrir komið á heimsvísu.

Ég get nefnt núna í lokin, af því að menn segja að við séum eitthvað forpokaðir hér, að bandaríska alríkisstjórnin niðurgreiðir hrísgrjónaræktun í Arkansas. Ein síðasta viðskiptaþvingun sem ég man eftir varðandi landbúnaðarafurðir var einmitt gerð í Bandaríkjunum árið 1998 eða 1999 þegar Bill Clinton setti á sérstakan verndartoll gagnvart lambi frá Nýja-Sjálandi og Ástralíu til þess að styðja ameríska sauðfjárrækt, sem er svona jafn mikils virði eins og hundahald í þéttbýli og hefur jafn mikla framleiðni í för með sér. En menn kusu að styðja þessa atvinnugrein og við eigum náttúrlega að gera það. Við eigum að stuðla að því að þessi samningur verði að veruleika vegna þess að hann færir að mínu mati landbúnað og neytendur nær hver öðrum.