145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[23:23]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ýmislegt athyglisvert í ræðu hv. þingmanns sem ég vil gera athugasemdir við. Ég vil samt byrja á hinni víðfrægu endurskoðun sem gert er ráð fyrir á næsta kjörtímabili. Hv. þingmaður virðist algjörlega misskilja skuldbindingagildi búvörusamninga. Ríkið hafði ekki frjálst val um að skerða búvörusamninga 2009. Þá var farið inn í búvörusamninga vegna fordæmalauss efnahagsáfalls og skorið gríðarlega niður í öllum tilfærslukerfum ríkisins. En þar sem samningur var fyrir hendi þarna var einungis hægt að semja við bændur um breytingar sem fólust í lækkun í upphafi og síðan framlengingu samningsins um tvenn viðbótaráramót. Með öðrum orðum, ríkið var bundið af þeim ramma sem búvörusamningurinn markaði. Það er bara rangt og mikill misskilningur hjá hv. þingmanni ef hann heldur að ríkið hafi frjálst val um að virða að vettugi búvörusamning sem gerður hefur verið til ákveðins tíma.

Þess vegna hlýt ég að spyrja: Getur hv. þingmaður lofað því hér að við endurskoðun í kjölfar þess samráðs sem nú á að stofna til geti komið endurskoðun sem breyti raunverulega efnisatriðum samninganna og ríkið þurfi ekki að borga viðsemjendurna út úr samningnum ef ríkið vill breyta honum? Getur hann lofað því? Getur hann lofað því að ríkið eigi frjálst val, nýr stjórnarmeirihluti? Blessunarlega bendir flest til þess að nýr stjórnarmeirihluti verði betur skipaður á næsta kjörtímabili en þessu hvað varðar áhugamenn um frjálslyndi og frjáls viðskipti og er nokkur landhreinsun að því. Þá hlýt ég að spyrja: Verður hægt fyrir þann meiri hluta, það þing, að taka sínar ákvarðanir eða munu menn sitja uppi með það að framsóknarþingmenn hafi á síðustu metrum stjórnmálaferils síns bundið hendur tveggja þinga í tíu ár?