145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[23:25]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var hraustlega mælt af fulltrúa flokks í útrýmingarhættu. En get ég lofað? Ég get alla vega lofað því að sá sérfræðingur sem við fengum til liðs við okkur í atvinnuveganefnd kvað upp úr um að endurskoðunarákvæðin héldu eins og við settum þau fram. Ég geri ekki ágreining við háskólafólk sem hefur það að atvinnu sinni og hefur sérmenntað sig í því. Við alþingismenn reiðum okkur á sérfræðinga, við gerum það (Gripið fram í.) í hverju einasta máli sem við fáum til úrlausnar. Eftir þessa heimsókn var það alla vega næg trygging fyrir þann sem hér stendur fyrir því að hægt væri að semja upp á nýtt um ákveðin atriði í þessum samningi. Það er t.d. búið að minnast á niðurlagningu á svokölluðum framleiðslukvóta í mjólk sem menn voru með upprunalega með dálítið langt inn í samninginn. Ég tel að það komi til athugunar eftir þrjú ár. En ég endurtek að ég tel það álit sem við fengum frá þessum fræðimanni fullkomlega nóg til þess að ætla að það sé hægt.