145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[23:31]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykir þessi tillaga áhugaverð. Mér hefur lengi verið mjög hugleikið að skapa meiri sátt um íslenskan landbúnað. Eins og ýmsir vita tala ég mjög hér í þessum sölum fyrir eftirliti með verði, verðlagningu o.s.frv. og mér finnst einboðið að sem flestir komi að þegar samningar eins og þessir eru gerðir og eru til umfjöllunar og eru til uppbyggingar. Þess vegna tek ég undir það með hv. þingmanni að ég stend náttúrlega að þeirri tillögu að við næstu endurskoðun hefjist þetta samráðsferli strax. Ég tel að það sé mjög mikilvægt. Við höfum ágæta reynslu af stórum fjölskipuðum nefndum sem takast jafnvel á og komast síðan að niðurstöðu, oftast sameiginlegri en stundum með sérálitum eins og gengur. Ég held að það sé mjög mikilvægt.

Ég hef gagnrýnt bændaforustuna fyrir það að mér finnst hún ekki reyna að útskýra fyrir neytendum, sérstaklega hér á þessu svæði, hver hagur þeirra er af samningi eins og þessum. Það stendur hreinlega upp á þá stétt að gera það. Það er út af fyrir sig ekki okkar verkefni að gera það. Það verða bændur að gera sjálfir. Til dæmis er mjög fróðlegt að fylgjast með skiptingu verðmætis eins og lambakjöts milli bænda, afurðastöðva, verslunar og ríkisins hins vegar. Það hefur komið í ljós að bændur fá mun minna hér á landi í sinn hlut en bændur t.d. í Bretlandi. Þetta þykir mér rétt að neytendur viti og þetta á auðvitað að vera sjálfsögð upplýsingagjöf. Auðvitað fagna ég auknu samráði.