145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Forseti. Nefnd á vegum heilbrigðisráðherra um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum fíkniefnaneyslu hefur skilað af sér og í samtali við Stöð 2 í gær sagði formaður nefndarinnar að niðurstaðan væri veruleg afstöðubreyting í fíkniefnamálum. Og hver er hún? Jú, helsta tillagan er sú að fangelsa ekki fyrir það að bera á sér neysluskammta fíkniefna heldur sekta frekar fyrir athæfið.

Virðulegi forseti. Þetta hefur ekki verið viðhaft hér, fólki hefur ekki verið hent í fangelsi fyrir það eitt að bera á sér neysluskammta. Þetta veit starfshópurinn auðvitað en leggur til að lögum verði breytt svo þau verði í takt við það hvernig þeim hefur verið framfylgt. Hér er því ekki um neina raunverulega breytingu að ræða nema kannski að lögð er enn meiri áhersla á sektirnar. En það á ekki að sekta fólk eins og mig sem velur sér áfengi sem sinn vímugjafa, bara hina sem velja sér önnur vímuefni. Þá er mikið talað um skaðaminnkun í þessum tillögum en það gleymist alveg að gera grein fyrir því hvernig sekta á fíkniefnaneytendur, hvernig sektir fara með hugmyndum um skaðaminnkun og þeirri hugmyndafræði að aðstoða eigi fíkla við að komast úr heimi fíknar.

Svo er líka eftirtektarvert að fulltrúi ríkislögreglustjóra í nefndinni treystir sér ekki til að greiða atkvæði með þessum tillögum, sem sumum þykja vera stórt skref í rétta átt. Af hverju er það? Af því að hlutverk nefndarinnar var, með leyfi forseta, að „skapa heildstæða stefnu, sem leggur höfuðáherslu á mannúðlega nálgun og vernd mannréttinda“.

Mig langar þess vegna til að vita hvernig fulltrúi ríkislögreglustjóra gat verið á móti tillögunum. Með því að vera á móti hlýtur hann beinlínis að ganga gegn tilgangi og meginverkefni hópsins, ekki nema þessi fulltrúi lögreglunnar hafi viljað ganga lengra og lögleiða önnur fíkniefni eins og gert er með áfengi. Ef svo væri gæti ég skilið það og tekið undir því að það er morgunljóst að vímuefnaneytendur (Forseti hringir.) verða ekki edrú eða bættir borgarar með neikvæðum hvötum frá ríkinu. Þarna þarf að beita forvörnum og aðstoð umfram allt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna