145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Krafan um ofurskatt á ofurlaun er vöknuð á ný af fullum þunga og að gefnu tilefni því hvað er til ráða þegar samþykktir eru kaupaukar til starfsmanna fjármálafyrirtækja sem nema milljörðum króna í samfélagi þar sem barnafjölskyldur, láglaunafólk, aldraðir og öryrkjar eiga varla í sig eða á. Hvers konar samfélag er það sem horfir þegjandi upp á slíkan ójöfnuð? Við getum ekki sem siðað samfélag sætt okkur við það brjálæði að menn sem hafa það að aðalstarfi að hirða eignir af fólki og fyrirtækjum í umboði kröfuhafa skuli fá í kaupauka tugföld árslaun verkamanns.

Nú hafa stjórnarþingmenn sagt í fjölmiðlum að ómögulegt sé fyrir löggjafann að hafa áhrif á þetta og ekki sé hægt að taka geðþóttaákvarðanir þegar menn geri eitthvað sem talið sé óæskilegt því að málið varði ekki almannahagsmuni, eins og það er orðað. Ég vil andmæla þessu sjónarmiði sem hefur komið fram opinberlega því að málið varðar almannahagsmuni og það er hlutverk löggjafans að setja lagaramma um almenn ásættanleg skilyrði til að tryggja frið og sátt í samfélaginu.

Ofurgreiðslur í kaupaukum eru ögrun við almennt velsæmi. Þær ýta undir úlfúð og vinnudeilur, grafa undan jafnvægi og sátt í samfélaginu og þeim hefur verið mótmælt af aðilum vinnumarkaðarins, almenningi, þingmönnum og fleirum. Það væri óskandi að þessi vinnustaður gæti tekið hlutverk sitt alvarlega sem löggjafa og stemmt á að ósi varðandi þessa ósvinnu með lagasetningu.


Efnisorð er vísa í ræðuna