145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að lýsa ánægju minni með gang þingstarfanna frá því að þing kom saman í ágúst, bæði hér í þingsal og ekki síður við vinnu í nefndum með fjölda mála. Staðreyndin er að þingmenn allra flokka vinna af krafti í nefndum, sækja nefndarfundi og lesa heilu doðrantana milli nefndarfunda. Það kemur hins vegar fyrir að ekki er fjölmenni í þingsalnum enda vitum við það öll sem hér störfum að þegar þingmenn hafa ekki í hyggju að blanda sér í umræður í þingsal um einstök máls getur tími þeirra nýst mun betur í vinnu sé vinnunni sinnt annars staðar en í þingsalnum. Enginn vandi er að fylgjast með umræðum í þingsal nokkurn veginn hvar í heiminum sem þingmenn eru staddir.

Það skiptir okkur öll máli sem hér störfum að mest af þeirri vinnu sem við höfum lagt í skili sér áfram með einhverjum hætti í gegnum þingið. Eitt af þeim málum sem mér er mikið í mun að Alþingi taki fyrir og ljúki með formlegum hætti sem fyrst er heimild til fullgildingar Parísarsamningsins í loftslagsmálum. Þrátt fyrir að fullgildingin krefjist ekki lagabreytingar er mikilvægt að Alþingi taki samninginn til umfjöllunar. Parísarsamningurinn er það mikilvægur fyrir framtíð okkar allra að æskilegt er að Alþingi samþykki sérstaka heimild til fullgildingar samningsins fyrir Íslands hönd. Því fyrr sem Ísland fullgildir samninginn því betra, því að Parísarsamningurinn tekur fyrst gildi 30 dögum eftir að 55 aðilar sem eru ábyrgir fyrir a.m.k. 55% af útblæstri í heiminum hafa fullgilt samninginn. Fullgilding af Íslands hálfu á árinu 2016 yrði því lóð á vogarskálar þess að samningurinn öðlist sem fyrst fullt gildi.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna