145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna.

851. mál
[15:53]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Skýrslan um málefni sparisjóðanna er mikil að vöxtum. Það var hvorki áhlaupaverk í nefndinni að fjalla um hana né að afmarka umfjöllun nefndarinnar um einstaka þætti í þessari löngu sorgarsögu. Eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson, formaður nefndarinnar, gerði grein fyrir í sínu máli varð niðurstaða nefndarinnar sú að það væri óhjákvæmilegt að horfa fyrst og síðast til þáttar opinberra aðila í þessu máli. Með því er ekki sagt að annað sé ekki athyglivert eða ámælisvert. Þvert á móti á sú langa sorgarsaga sem birtist í síðustu áratugum sparisjóðanna að vera okkur alvarlegt viðvörunarefni um stórhættulegt samkrull stjórnmála og viðskiptalífs og um græðgi gagnvart eignum sem ekki eru í beinni einkaeigu.

Á sínum tíma varð mikil umræða í þessum sal og víða annars staðar í samfélaginu um hversu óheppilegt það væri ef til væri fé án hirðis, eins og það var orðað. Þannig var auðvitað um fjármagnið sem hafði safnast upp í sparisjóðunum í meira en heila öld. Það þótti einstök goðgá að þetta fé væri ekki veðsetningarhæft og lyti ekki einkaeignarhaldi heldur væri lokað inni í þessum stofnunum. Það væri grundvallaratriði að koma því svo fyrir að það yrði losað út og afhent einhverjum til einkaeignar. Þetta var ekkert einsdæmi með sparisjóðina. Við sáum nákvæmlega sömu krafta leikast á þegar kom að því að einkavæða verkamannabústaðakerfið í lok síðustu aldar. Þar hafði safnast upp í gegnum nærri 80 ár gríðarleg almenningseign sem enginn átti einn. Hún veltist áfram kynslóð fram af kynslóð, varð kynslóð eftir kynslóð til að auðvelda íbúðarkaup og komast í öruggt húsnæði vegna þess að íbúðirnar voru alltaf seldar á endurmetnu stofnfé en ekki markaðssæknu. Það var pólitísk ákvörðun á sama tíma að auðvelda mönnum að komast í þá duldu eign sem lá í sparisjóðunum rétt eins og að splundra upp verkamannabústaðakerfinu og afhenda þeim sem í því sátu þá eign sem þar var. Við þekkjum afleiðingarnar á húsnæðismarkaði, hvað verkamannabústaðakerfið varðar, þar sem nokkrar kynslóðir hafa verið í gríðarlegum vandræðum með aðgang að öruggu húsnæði og ríkið stendur frammi fyrir því með nýjum frumvörpum sem almenn samstaða hefur orðið um á Alþingi að leggja gríðarlega peninga á næstu áratugum í að enduruppbyggja eitthvert slíkt kerfi þar sem kostnaði við húsnæðisöflun verði þannig fyrir komið að fólk á lægstu tekjum þurfi ekki að borga hann allan heldur geti átt aðgang að ódýru, öruggu húsnæði.

Við eigum alveg eftir að vinna úr lærdómnum að þessu leyti hvað varðar sparisjóðina. Við bættist að gríðarleg klíkumyndun varð í kringum það hverjir fengu að verða stofnfjáreigendur í sjóðunum. Við sáum myndast pólitískar valdaklíkur vítt og breitt um land sem gátu útdeilt aðgangi að stofnfé sem menn gátu síðan selt með gríðarlegum hagnaði sem er mikil sorgarsaga.

Þegar við horfum á þetta allt saman þurfum við að velta því upp hvað það er í íslenskri þjóðarsál, hvað það var í viðhorfi okkar til einkaeignarréttar, sem olli því að við splundruðum samfélagslegum eignum í lok síðustu aldar sem aðrar þjóðir hafa gætt að því að gera ekki. Um alla Evrópu er til ólíkt form félagslegrar eignar. Í verkamannabústaðakerfinu danska, í „andelsbolig“-kerfinu, og víða í norrænum íbúðakerfum er til eign sem er sokkin að stórum hluta og fólk getur keypt sig inn í en borgar bara hluta af raunverðinu fyrir. Víða í Bretlandi eru til lokaðir sjóðir eða „trusts“ sem enginn kemst í. Ég kynntist því þegar ég var með barnabarni mínu í Lundúnum að nálægt þar sem barnið bjó var leikvöllur sem var komið upp af auðugum manni fyrir 150 árum. Þar fær enginn fullorðinn að fara inn nema í fylgd barns, „unaccompanied adults“ eru bannaðir, fullorðnir sem ekki njóta fylgdar barna. Þar er gæsla og fullt af dýrum fyrir börn að leika við. Ég horfði á þetta og hugsaði: Þetta hefði aldrei fengið að lifa í 150 ár á Íslandi. Þetta fé án hirðis hefði orðið einhverjum til slíks ama að því hefði verið splundrað.

Við þurfum þess vegna að hugsa það af mikilli alvöru hvernig við byggjum upp víðtæk samfélagsleg verðmæti og hvernig við höldum aftur af hinni, að því er ég vil meina, allt að því sjúklegu áherslu á einkaeignarrétt sem einkennir því miður íslenska lögfræðihugsun um of.

Ég er búinn að rekja hina pólitísku misnotkun í þessu kerfi. Við sáum þetta skýrast í tilviki Sparisjóðsins í Keflavík þar sem valdastrúktúr Sjálfstæðisflokksins í Keflavík var byggður upp í kringum skömmtunarkerfið sem hægt var að búa til í Sparisjóði Keflavíkur. Allir í klíkunni voru með í að splundra eignunum og hirða þær. Þetta var grunnurinn að valdastöðu Sjálfstæðisflokksins á svæðinu.

Við fjölluðum líka sérstaklega í nefndinni um aðgerðirnar í kjölfar hruns. Hv. þm. Ögmundur Jónasson greindi áðan frá niðurstöðum nefndarinnar að því leyti. Ég held að við megum draga þann lærdóm af þeirri sögu að þegar kemur að aðgerðum ríkisins í kjölfar efnahagsáfalla og bankaáfalla verði ríkið að setja sér mjög skýr markmið. Ég tel að markmiðið hefði átt að vera í samræmi við neyðarlögin, að bjarga innstæðum og finna þeim farsælan farveg með lágmarkstilkostnaði fyrir þjóðarbúið. Ef menn vildu síðan hafa áhrif af hálfu ríkisins á að til væri sparisjóðakerfi varð að verðmeta það. Að mínu áliti var ekki hægt og ekki eðlilegt að blanda hlutverki ríkisins við neyðarbjörgun innstæðna, að tryggja þær og koma þeim farsællega fyrir, saman við pólitíska markmiðið, að byggja upp sparisjóðakerfið. Við ræddum sparisjóðakerfið nefnilega oft í þessum sal. Ég kom að því sem efnahags- og viðskiptaráðherra. Hæstv. núverandi forseti sem situr að baki mér spurði mig oft hvað liði stefnumörkun um að tryggja viðgang sparisjóðakerfisins. Við höfðum mörg á því áhuga en eins og ég sagði alltaf og segi enn úr þessum stól: Það er ekki hægt að hanna bankakerfi og búa til forsendur fyrir ólíkar bankastofnanir ef þær eiga sér ekki rekstrarforsendur öðruvísi en að ríkið borgi það. Það gengur ekki. Ríkið getur með almennu regluverki stutt við fjölbreytni í bankakerfi en ríkið getur ekki tekið að sér að mínu viti að greiða úr ríkissjóði fórnarkostnað af því að halda úti svona bankakerfi eða öðru. Auðvitað lærðum við af þessu eftir hrunið að það var mikilvægt og eðlilegast að gera eins og gert var á endanum með Sparisjóð Keflavíkur, að fella hann einfaldlega inn í aðra stærri einingu. Ég held að það hafi verið hin æskilega leið. Kostnaðurinn sem hlaust af því á endanum er ekki annar en sá sem fellur af því að verja innstæðurnar. Það er auðvitað yfirlýsing sem gefin var í hruninu og staðið við af öllum stjórnmálaflokkum, að innstæður yrðu varðar, og ég held að það hafi í sjálfu sér forðað enn verra fjármálaáfalli og verið skynsamleg og rökrétt yfirlýsing þegar hún var gefin, eins og síðar hefur komið í ljós.

Í skýrslunni og aðeins í umfjöllun nefndarinnar er líka fjallað nokkuð um breytingar á löggjöf og áhrif lagabreytinga á rekstrarumgjörð sparisjóðanna. Það er vissulega rétt að nýjar Evrópureglur komu til skjalanna og að svigrúm í þeim var ekki nýtt þannig að það væri sérstaklega hugað að því að létta skyldum af sparisjóðum. Auðvitað var tíðarandinn einhvern veginn sá upp úr síðustu aldamótum að allir bankar áttu að verða bankar. Það skipti máli að komast yfir þessa duldu eign alls staðar og fénýta hana til að hægt væri að veðsetja hana og halda áfram að gíra allt galleríið upp, eins og gert var í tilviki allra stóru ríkisbankanna og eiginlega alls viðskiptalífsins í sjálfu sér þegar viðskiptabankarnir fóru hver um annan þveran í fjandsamlega yfirtöku á fyrirtækjum sem voru jafnvel í viðskiptum við þá. Svo ótrúlega öfugsnúið var þetta viðskiptalíf orðið í aðdraganda hruns.

Það sem er athyglisvert varðandi regluverkið er að hafa í huga líka að eftir hrun hefur hin evrópska áhersla og áherslan innan lands verið á að herða reglur, auka eftirlit, draga úr útlánaáhættu, gera ríkari kröfur um að menn gangi vel úr skugga um alla áhættu og greini hana rétt. Allt þetta veldur því að eftirlitskostnaður lítilla fjármálafyrirtækja hefur aukist hlutfallslega mest. Það er eiginlega óhjákvæmileg afleiðing af hruninu jafnt hér á landi sem í öðrum löndum. Því er það svo að þrátt fyrir góð orð sem við höfum mörg haft um endurreisn sparisjóðakerfis og mikilvægi lítilla rekstrareininga í þessu kerfi hefur reynst mjög erfitt að byggja það upp og fjárfestar hafa ekki verið tilbúnir að leggja sitt eigið fé í nýja sparisjóði. Það er áhyggjuefni.

Sjálfur tel ég hins vegar að við séum á þröskuldi algerlega nýrra tíma að þessu leyti, að núverandi bankakerfi okkar sé þannig að það þurfi mikillar endurskoðunar við. Við í Samfylkingunni fengum í vor til landsins John Kay sem skrifað hefur merka bók um annarra manna fé, Other People's Money, sem fjallar í reynd um það hvernig fjármálakerfið sé farið að þjóna sjálfu sér og hvernig allt í því byggist á því að stjórnendur geti búið til eignir sem þeir geta velt einhvern veginn við þannig að til verði bókhaldslegur hagnaður sem geti síðan réttlætt gríðarlega kaupauka og há laun. Það sem fjármálakerfið ætti að gera, sem væri að miðla fé frá þeim sem vilja spara og til þeirra sem vilja lána, og öfugt, er þar algert aukaatriði. Á einum stað í þessari ágætu bók segir John Kay að líklega komist engin atvinnugrein upp með að sinna jafn illa grundvallarhlutverki sínu og fjármálakerfið gerir átölulaust.

Hann rekur líka í þessari ágætu bók þann viðstöðulausa grátkór sem ávallt vaknar af hálfu ráðandi afla í fjármálakerfinu ef hrófla á að einhverju leyti við starfsskilyrðum þessa kerfis. Sumum af þeim hugmyndum sem hann viðrar höfum við í sjálfu sér hrint í framkvæmd, að sumu leyti með yfirveguðum hætti og að sumu leyti óvart í kjölfar hruns. Þannig standa innlán nú t.d. undir drýgstum hluta útlána innlendu bankanna. Þeir eru gríðarlega vel fjármagnaðir. Á móti kemur að eftirlitskostnaður þeirra hefur aukist og eftirlitskostnaður lítilla fjármálafyrirtækja hefur aukist enn meira. Við þurfum að hugsa mjög vel með hvaða hætti sé hægt að brjóta upp stærri fjármálafyrirtækin, greiða fyrir því að til verði lítil fjármálafyrirtæki sem geti veitt fjölbreytta þjónustu en áhættulitla þannig að hægt verði að reka sparisjóði í þeirri mynd sem við þekktum þá einu sinni án þess eftirlitskostnaðar sem leiðir af því regluverki sem gildir almennt um viðskiptabanka. Það er t.d. athyglisvert í þessu samhengi að sjá þá breytingu sem er að verða í svokallaðri skuggabankastarfsemi á Íslandi. Vegna þess að við höfum sett háa skatta og auknar eftirlitskvaðir á fjármálafyrirtækin hefur sífellt stærri hluti lánaviðskiptanna flust út úr bönkunum. Fólk fer í vaxandi mæli í lífeyrissjóðinn sinn og fær lán, fyrirtæki labba upp í Gamma og fá lán þar, slík fyrirtæki sem eiga sjóði til að fjárfesta þurfa ekki að uppfylla sömu eftirlitskröfur og bankar og þurfa ekki að bera sama eftirlitskostnað. Þannig held ég að bankakerfið og fjármálakerfið allt í sjálfu sér sé í mikilli gerjun akkúrat núna. Við þurfum að vera opin fyrir því með hvaða hætti við getum haft áhrif á þá þróun þannig að mögulegt verði að reka farsælar miðlunarstofnanir með fé með lítilli áhættu þannig að eftirlitskostnaður slíkra stofnana þurfi ekki að vera of mikill og regluverkið í kringum þær ekki of íþyngjandi.

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu varð nokkur samfélagsleg umræða um umfang þeirrar skýrslu sem hér er rædd og kostnaðinn við hana. Í kjölfar þess hefur verið farið yfir reglur um rannsóknarnefndir Alþingis og búinn til farvegur til að reyna að tryggja að fjárhagslegt umfang úttekta af þessu tagi verði ekki þannig að ógerningur sé að koma við rannsóknarnefndum þegar þörf er á. Ég er mjög ánægður með að við settum þegar af stað á liðnu vori rannsókn á afmörkuðum þáttum í sölu bankanna á sínum tíma, sérstaklega sölu Búnaðarbankans, og það er mjög mikilvægt að við fáum fljótt dæmi um að hægt sé að ráðast í rannsóknir á vegum Alþingis sem reynist ekki svo ofboðslega dýrar að menn veigri sér við að nýta það mikilvæga tæki sem rannsóknarnefndir eru til að leiða í ljós staðreyndir um mikilvæg samfélagsleg málefni.

Að svo mæltu vil ég þakka samstarfið í nefndinni um þetta mál sem var hið besta og ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur að draga réttan lærdóm af þessari sorgarsögu sparisjóðanna.