145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna.

851. mál
[16:11]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar telur sjö þykk bindi, er mikil og flókin sorgarsaga. Bara álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er vel yfir 40 síður og hér liggur mikil vinna að baki og full ástæða til að þakka það. Hins vegar er full ástæða til að sýta það að þurft hafi að fara í þessa vinnu. Hún er afleiðingin af dæmalausri stöðu þegar allt bankakerfið hrundi árið 2008, sparisjóðakerfið þar með, enda orðið hluti af þessum risastóra bankakapli sem var orðinn óeðlilegur. Stór hluti af vinnunni við þessa skýrslu er tilraun til að grafast fyrir um hvað gerðist, hvernig svona illa gat farið og hvaða lærdóm er hægt að draga af því.

Síðan er önnur sorgarsaga ekki síður mikilvæg í þessari rannsóknarskýrslu sem er auðvitað aðdragandinn að hruninu, þ.e. hvernig sparisjóðakerfið sem hafði verið nokkuð farsælt í raun og veru, samfélagsbankakerfi áratugum saman á Íslandi, breyttist í eitthvað allt annað, það má segja skrímsli, sem fór síðan húrrandi niður með hinum bönkunum í bankahruninu 2008.

Mig langar til að bera lof á þessa vinnu. Skýrslan er ekki skemmtileg lesning heldur að mörgu leyti hundleiðinleg, ekki af því hún sé löng eða málefnið flókið heldur vegna þess hversu mikil sorgarsaga það er allt saman að samfélagsbankakerfi hafi í raun og veru af hugmyndafræðilegum ástæðum verið snúið úr því hlutverki og yfir í að vera bankastarfsemi með gróðasjónarmiðin að leiðarljósi, hvernig fé án hirðis eins og það var kallað á sínum tíma — þ.e. samfélagslegar eignir voru færðar svokölluðum stofnfjáreigendum sem voru handvaldir og úr urðu í raun og veru klíkur sem því miður voru síðan allt of oft snartengdar bæði stjórnmálum og öðrum valdaöflum í samfélaginu. Þessar samfélagsstofnanir voru keyrðar upp í bankakerfi sem óx og óx án þess að nokkurt opinbert eftirlit eða aðhald kæmi vörnum við þangað til það stóð ekki undir sjálfu sér og hrundi.

Það er ástæða til að mæla með þessari hundleiðinlegu skýrslu, þessari hundleiðinlegu sögu, vegna þess að hún er mjög mikilvægt víti til varnaðar. Gleymum því ekki að það eru ekki mörg ár síðan við fylgdumst með götuljósunum á Íslandi þegar dimmdi yfir hægt og rólega meðan við veltum fyrir okkur hvort við ættum yfir höfuð einhverja framtíð fyrir okkur hérna sem samfélag. Núna örfáum árum eftir þetta stóra bankahrun erum við farin að sjá allt of mörg merki um að að efnahagslífið, fjármálalífið, sé að teygjast aftur í sama gamla óvanann. Við erum farin að heyra fréttir af risabankamannabónusum og hugmyndir um milljarðaviðskipti eru farnar að sjást á síðum blaðanna eins og að þúsund milljónir séu eðlileg upphæð í daglegum viðskiptum.

Það er mikilvægt að við lærum af þessari sögu og ekki síst mikilvægt að við lærum hlutverk eftirlitsstofnana og opinbers aðhalds þegar kemur að fjármálakerfinu. Það kom aldeilis eftirminnilega í ljós árið 2008 að þegar allt um þrýtur er það samfélagið og ríkið, opinberar stofnanir, sem þarf að taka við skellinum, bjarga því sem bjargað verður og þess vegna er mjög mikilvægt að við höldum þeim lærdómi á lofti að opinbert eftirlit með fjármálakerfi er lífsnauðsynlegt. Það er lífsnauðsynlegt fyrir samfélagið sem ella þarf að taka við rústunum, en það er líka lífsnauðsynlegt til að fjármálakerfið sé heilbrigt, eðlilegt og lífvænlegt.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu sérstaklega. Áheyrnarfulltrúi okkar í nefndinni, hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir, er því miður ekki í þinginu í dag til að taka dýpri efnislega umræðu, en ég þakka fyrir störf nefndarinnar, fyrir skýrsluna og þessa umræðu hérna í dag.