145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna.

851. mál
[17:18]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég vil líkt og aðrir byrja á að þakka hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir yfirferð hennar yfir þessa skýrslu. Nefndin hefur greinilega farið vel ofan í þessi mál. Ég tek undir með meginþáttum nefndarálitsins og því sem fram kemur um málið. Ég tek líka undir með talsmönnum málsins og fleiri þingmönnum um að betur hefði þurft að fara ofan í Drómamálið sem er sóðalegt mál í alla staði.

Við að hlusta á umræðuna hefur mér fundist örla á að tilkoma þessarar skýrslu eða álits sé einhver lokapunktur við að ekki sé hægt að halda úti samfélagslegum banka eða sparisjóðum í þeirri mynd sem hugsun þeirra snerist um. Því er ég algerlega ósammála. Ég held að ef við tökum bæði álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og þá skýrslu rannsóknarnefndar sparisjóðanna sem hér er til umfjöllunar eigum við einmitt núna í framhaldinu, ég tek undir með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að fara í að móta stefnu fyrir fjármálakerfið. Við eigum að leita leiða til að endurvekja þá hugsun sem var á bak við sparisjóðina á sínum tíma áður en farið var að hola innan úr þeim, áður en reglum var breytt og þessu öllu í sömu gróðastofnanirnar og aðrar fjármálastofnanir eru. Við eigum núna að fara að huga að því. Það kann að vera að sparisjóðirnir gangi ekki nákvæmlega í þeirri mynd sem þeir voru áður í, en við eigum að taka inn í þessa umræðu umræðuna um samfélagsbankann sem nokkrir stjórnmálaflokkar eru búnir að taka upp í sína stefnu. Auk Framsóknarflokksins hafa Samfylkingin og Vinstri hreyfingin – grænt framboð þegar tekið upp þá stefnu. Mér er ekki kunnugt um hvort Píratarnir eru með hana.

Við eigum líka að fara í umræðuna um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Ég hef bent á það úr þessum ræðustól að það er sögulegt að nú eru, held ég, allir stjórnmálaflokkar á Alþingi með það á stefnuskrá sinni að aðskilja viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti það á sínum landsfundi. Engu að síður ber það allt of oft við að þingmenn flokksins tali ekki með þeim hætti þegar þeir koma upp í ræðustól. Þetta er hluti af því að endurreisa fjármálakerfið og ég er sannfærður um að þegar menn fara ofan í stefnuna um samfélagslegu hugsjónina, viðskiptabankann og annað því um líkt komist menn að þeirri niðurstöðu að það sé mögulegt að byggja hér upp fjármálastofnanir ekkert ólíkar þeim sem sparisjóðirnir voru og áttu að vera.

Ég hef hins vegar áhyggjur af því að það verði ekki. Núna er samt tækifærið vegna þess að ríkið heldur á stórum hluta fjármálakerfisins, stærri hluta fjármálakerfisins en það hefur gert allt frá efnahagshruninu. Við eigum að ráðast í endurskipulagningu á fjármálakerfinu með það að leiðarljósi að byggja hér upp samfélagsbanka, sparisjóð eða aðrar þær fjármálastofnanir sem setja samfélagsleg gildi í forgang fremur en þau gróðasjónarmið sem við sjáum birtast núna í fréttum með ofurbónusum og öðru slíku. Mér finnst álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar undirstrika þann vilja sem er til staðar til að horfa í þessa átt. Ég hvet til þess að næsta kjörtímabil fái það verkefni að vinna að stefnu sem miði að því að byggja hér upp öfluga fjármálastofnun sem hafi samfélagslegt hlutverk að leiðarljósi.