145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[17:52]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir prýðilega góða ræðu. Ég veit að flokkur þingmannsins hefur mikinn áhuga á sjálfbærni og mig langar aðeins að spyrja hvort henni finnist ekki skorta langtímasjónarmið og langtímaáætlun sem samræmist bæði nútímanum og nauðsynlegri sýn á það hvernig við getum markað okkur sérstöðu varðandi sjálfbærni. Og hvort þingmanninum finnist vera tekið tillit til fjölbreytileika í búvörum og líka annarri tegund nytja en hefðbundnum nytjum á dýrum og landi. Ég hef persónulega verið að skoða það sem kallað er „vertical farming“ erlendis sem hefur verið ótrúlega mikil þróun í. Þegar ég skoða búvörusamninginn og síðan allar umræðurnar um að Ísland geti verið sjálfbærara og nýtt orkuna okkar á annan hátt en nú er skynja ég ekki neina þannig hugsun í þessum samningi. Þetta er eins og að detta aftur ekki bara á síðustu öld heldur líka þarsíðustu.