145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[17:59]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála síðustu orðum hv. þingmanns. Kannski endurspeglar umræða um búvörusamninga og breytingar á búvörulögum ekki endilega allt það sem er nýtt að gerast í innlendum landbúnaði. Það er auðvitað heilmikið að gerast. Oft finnst mér umræðan verða rosalega þröng og snúast um þennan þátt, þ.e. hvernig stuðningi hins opinbera er háttað við landbúnað, án þess að við ræðum um hvað er að gerast og þau markmið sem ég nefndi áðan um umhverfið, lýðheilsuna og fleira, og við förum svolítið inn í þrætuna. Það er það sem ég sakna. Ég hefði svo gjarnan viljað sjá víðtækara samráð áður en þessar breytingar og þessir samningar komu hér inn þannig að við hefðum getað opnað fyrir þá umræðu sem ég er alveg viss um að hefði fært þingmenn nær hver öðrum í nálguninni á þetta. Ég er alveg viss um að við getum sameinast um mörg af yfirmarkmiðunum.

Hv. þingmaður nefndi í fyrra andsvari sínu fjölbreytileikann, þ.e. líffræðilegan fjölbreytileika. Þar hefur landbúnaðurinn líka mikilvægu hlutverki að gegna, t.d. þegar kemur að innlendum bústofnum, innlendu jurtaríki. Ég held að í þessari umræðu allri höfum við oft séð skemmtilega hluti gerast, ég rifja upp þegar Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri og Listaháskóli Íslands áttu stefnumót þar sem bændur og hönnuðir tóku höndum saman um að vinna nýjar afurðir úr innlendum landbúnaðarafurðum. Þarna eru alveg feikilega margir ónýttir möguleikar þó að margt skemmtilegt og áhugavert og vel hafi verið gert í þeim efnum. Það sem mér finnst svo vont í þessu máli öllu er að það skortir slíka umræðu. Maður hefði gjarnan viljað sjá þjóðfund um landbúnaðarmál þar sem við hefðum dregið saman niðurstöður og farið með þær inn í stjórnmálin, inn í bændastéttina og getað unnið (Forseti hringir.) úr því samtali eitthvað sem við hefðum getað náð meiri sátt um á þingi þannig að ímynd þessa málaflokks (Forseti hringir.) væri ekki deilur þingmanna um búvörusamninga heldur að við séum sammála um framtíðarsýn fyrir öflugan innlendan landbúnað.