145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[18:02]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Það er búið að vera mjög áhugavert að fylgjast með þessari umræðu um búvörusamninga. Margt hefur komið fram og er töluvert ámælisvert hvernig við förum að því að gera jafn viðamikla samninga sem gilda jafn lengi og raun ber vitni. Það er sorglegt að við sem ætluðum að boða breytt vinnubrögð eftir hrun séum aftur komin í sama, gamla farið, aftur farin að vinna bak við luktar dyr og að ekki sé hafið yfir allan vafa að allt sem kemur fram í þessum samningi sé besta nýtingin á okkar sameiginlega fé sem er skattpeningurinn okkar.

Það er mjög sorglegt að við getum ekki gert þetta í meiri samvinnu og meiri sátt, ekki síst til þess að skapa traust, þetta traust sem okkur vantar svo gífurlega mikið í þessu þjóðfélagi, milli ríkisstjórnarinnar og þjóðarinnar, þingsins og þjóðarinnar og þar fram eftir götunum, hjá þjóðinni sjálfri. Við þurfum ekki að vefengja heiðarleika bænda, en mér finnst þessi búvörulög og sú umræða sem hefur átt sér stað um þau, sér í lagi hvernig var staðið að samningnum, hafi svolítið vefengt þann heiðarleika, sem er mjög slæmt.

Það er margt í þessum búvörusamningi sem er svo sem ágætt að mínu viti og ég vona að þeirri vinnu verði haldið áfram. Þá er ég sérstaklega að tala um íslenska geitastofninn. Landbúnaður er oft á tíðum ríkisstyrktur. Það er svolítið sem við gleymum oft í þessari umræðu, hversu mikið ríki í gegnum tíðina hafa þurft að styrkja landbúnað sinn. Í umræðunni sem við eigum núna um búvörusamningana þá er grunnurinn að deilum um þá sérstaklega hugmyndin um frjálshyggju og félagshyggju og hversu langt ríkið eigi að ganga í að hjálpa einhverri einni ákveðinni atvinnugrein, hversu mikil ríkisafskipti eigi að vera af einhverri sérstakri atvinnugrein. Ég er í sjálfu sér sammála því að ríkið eigi ekki að hafa bein afskipti af rekstri fyrirtækja. En á sama tíma finnst mér ríkið og samfélagið hafa ákveðnar samfélagslegar skyldur til að halda úti byggð í landinu, tryggja matvælaöryggi, sjá til þess að við séum með fjölbreytt land í ræktun og viðhöldum ákveðinni þekkingu víða um land á því hvernig eigi að rækta landið okkar. Það hefur komið fyrir á fleiri en einum stað að fólk hefur hreinlega gleymt hvernig landið þess virkar. Það er ekki gott.

Ég hef ekki miklar forsendur til að vega og meta gæði einstakra liða í þessum samningi en tek undir þá gagnrýni sem komið hefur varðandi kvóta á mjólk og hvernig mjólk er safnað saman og ég velti líka fyrir mér þeirri einokunarstöðu sem Mjólkursamsalan hefur á íslenskum markaði þegar kemur að mjólk. Það er mikil nýsköpun í boði í þessum geira og þá þarf ákveðið frelsi. Ég held að það sem sé verið að gera hérna sé að festa enn frekar í sessi ákveðna einokunarstöðu hjá ákveðnum aðilum sem hafa verið ríkjandi á markaði hingað til, sem eiga 80% ef ekki meiri hlutdeild á mjólkurmarkaðnum. Og ef við erum með einhvern sem hefur svona markaðsráðandi stöðu þá þurfum við samt sem áður að tryggja samkeppni. Það er það sem við sjáum t.d. með nýju kúabúunum og mjólkurvinnslu eins og Örnu, við heyrum mjög gagnrýnar raddir úr ísframleiðslunni. Íslendingar eru sólgnir í ís. Þetta ætti að vera eitthvað sem við ættum að taka gagngert til skoðunar, sér í lagi eftir þann dóm sem féll síðast vegna Mjólkursamsölunnar varðandi einokunarstöðu og markaðsbrask sem var ekkert sérstaklega gott. Það er kominn tími til að við tökum þessi kerfi til gagngerrar endurskoðunar. Þessi kvótakerfi sem við erum með eru einfaldlega ekki góð.

Ég fagna því auðvitað að hér sé verið að búa til langtímaáætlun, búa til plön fram í tímann. Það er eitthvað sem íslensk stjórnmál og íslensk stjórnvöld hafa náttúrlega verið gagnrýnd fyrir, að geta ekki gert langtímaáætlanir. En ég held að grundvöllur að langtímaáætlunum sé samráð, gagnsæi, að byggja upp traust milli ólíkra aðila og finna málamiðlanir þegar við erum með jafn flókin og stór mál eins og hér, sérstaklega þegar kemur að sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu. Það er mjög umdeilt hvernig eigi að standa að þessu. Við þurfum að ná miklu víðtækari sátt.

Ég hef ekki mikla ástæðu til að hafa mál mitt lengra. Ég fagna þeirri umræðu sem hefur farið fram á þingi. Hún hefði átt að eiga sér stað fyrr. Við hefðum átt að ræða þessa hluti áður en samningurinn var gerður. Ég tek heils hugar undir orð hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur um að við þurfum að breyta þessu vinnulagi. Það er ekki alveg nógu gott hvernig við komumst að niðurstöðu um það hvernig við ætlum að deila þessum sameiginlega skattpeningi og hér er um að ræða þvílíkar skuldbindingar, tíu ár fram í tímann. Við erum komin á annan stað í lýðræðinu en þann að gera svona lagað bak við luktar dyr. Ég vona að næst, fyrst það er ekki hægt að laga þetta úr því sem komið er, þegar svona samningur verður gerður, hvort það er búvörusamningur eða eitthvað því um líkt, verði það gert í mun meira samráði, það verði mun meira gagnsæi í gerð þeirra samninga og fram fari mun meiri þjóðfélagsleg umræða um nauðsyn þeirra, kosti og galla.