145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[18:34]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir andsvar hennar. Ég vil ítreka það sem ég sagði áður í ræðu minni að þjóðarsamtalið sem við boðum er náttúrlega samtalið sem hefðum þurft að vera búin að taka miklu fyrr og við tókum það hér á árum áður. Við tókum það í kjölfar þjóðarsáttar 1991, við tókum það í aðdraganda samninga er gerðir voru árin 2002–2004 o.s.frv. Við höfðum síðan, á gildistíma samninga sem nú eru að renna úr gildi, gengið í gegnum miklar hremmingar sem ég þarf ekki að lýsa fyrir hv. þingmanni þar sem við vorum meira og minna í bráðabirgðaaðgerðum. Síðan fórum við inn í Evrópusambandsumsókn og allt saman gerði það að verkum að við frestuðum kannski breiðari samtali um stefnumörkun í íslenskum landbúnaði. Ég bið hv. þingmann að virða það sem við erum að gera.

Ég tek aftur fram: Áður voru búvörusamningar gerðir til sjö ára. Nú gerum við tíu ára ramma. Hvers vegna segjum við ramma? Vegna þess að við erum að hefja vegferð fyrir atvinnugrein sem hefur langa framleiðsluferla. Hún verður að sjá hvert við stefnum. Við ætlum samt á þessum tíu árum tvisvar sinnum að opna málið og semja um framtíðina og breyta áherslum, reyna að mæla hvað hefur tekist vel og hvað við þurfum að bæta. Þingmaðurinn verður einfaldlega að treysta því sem við segjum. Endurskoðunarákvæðið bindur engar hendur. Það er opið. Það er allt uppi á borðum.