145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

fjármálaáætlun og endurreisn heilbrigðiskerfisins.

[10:32]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Forseti. Hæstv. ráðherrar og hv. stjórnarþingmenn hafa samþykkt fjármálaáætlun hæstv. ríkisstjórnar til næstu fimm ára. Þar er gert ráð fyrir því að í lok tímabilsins verði hafist handa við byggingu meðferðarkjarna Landspítalans og það er gott. Það vantar hins vegar upp á áætlunina að komið sé til móts við ákall og væntingar fólksins í landinu um endurreisn heilbrigðiskerfisins. Það sjá fleiri en ég og nægir að skoða tölurnar í áætluninni, t.d. til sjúkrahúsþjónustu eins og ég hef áður talað um undir þessum dagskrárlið við hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég tel að fjárhæðirnar í ríkisfjármálaáætluninni sem ætlaðar eru til heilbrigðisþjónustunnar sýni samdrátt frekar en aukningu þegar tölurnar eru rýndar í ljósi fjölgunar sjúklinga, langra biðlista eftir þjónustu og uppsafnaðrar þarfar fyrir viðhald og tækjabúnað ásamt tryggu aðgengi heilbrigðisþjónustu óháð efnahag eða óháð því hvar fólk býr í landinu.

Engin heildstæð áætlun er um uppbyggingu hjúkrunarheimila svo dæmi sé tekið og hæstv. heilbrigðisráðherra hefur litlu bætt við í þeim málaflokki sem ekki hafði verið ákveðið á síðasta kjörtímabili þótt himinn og haf séu á milli stöðu ríkissjóðs núna og þá.

Ég vil spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann telji að ríkisfjármálaáætlunin nýsamþykkta til næstu fimm ára svari kalli fólksins í landinu eftir endurreisn heilbrigðiskerfisins.