145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

fjármálaáætlun og endurreisn heilbrigðiskerfisins.

[10:34]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Enn er hv. þingmaður á svipuðum slóðum í umræðu sinni um fjárframlög til heilbrigðisþjónustunnar í landinu og er enn á þeim slóðum að tala í raun niður þann aukna styrk sem verið er að gefa heilbrigðismálum í fjármálaáætluninni og hefur raunar verið gert í fjárlögum hvers árs núna um a.m.k. tveggja ára skeið. (KLM: Er það ekki bara …?) Hv. þm. Kristján Möller bar að sjálfsögðu ábyrgð á þessum þáttum líka á síðasta kjörtímabili eins og hv. fyrirspyrjandinn. Hv. þm. Kristján Möller skal bara koma í fyrirspurn um þessi mál þegar það á við í stað þess að gjamma utan úr sal. (Gripið fram í.)

Þegar spurt er hvort fjármálaáætlunin komi til móts við ákall almennings í landinu um aukna fjármuni til heilbrigðismála þá svara ég því játandi, en að sjálfsögðu, eins og ég hef áður ítrekað, má á mörgum sviðum gera betur. Við komum ekkert til móts við allar þarfir eða mætum óskum til fulls í fjármálaáætluninni á þessu sviði fremur en mörgum öðrum. Þegar sagt er hér og gefið til kynna að sá sem hér stendur bæti litlu við fyrri áætlanir á sviði uppbyggingar öldrunarheimila þá spyr ég hv. þingmann: Hvers slags málflutningur er það, vitandi með hvaða hætti gekk að fullnusta og koma til framkvæmda þeim góðu áformum sem leiguleiðin á síðasta kjörtímabili fól í sér? Ber sá sem hér stendur ábyrgð á því að þær framkvæmdir sem þar voru áformaðar komust ekki og eru raunar ekki enn þá komnar til framkvæmda?