145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

hlutfall landsframleiðslu til heilbrigðismála.

[10:45]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég kynnti sem sagt fjárlaganefndinni öll framlögin til mismunandi málaflokka í heilbrigðismálum þegar fjármálaáætlunin var lögð fram. Ég skal koma þeirri kynningu til hv. fyrirspyrjanda. Ég er því miður ekki með þetta allt í kollinum eða á hraðbergi og skal glaður koma þeim upplýsingum á framfæri. Þær liggja allar fyrir. Það er um að ræða verulega aukningu á mörgum sviðum heilbrigðismálanna í þeirri áætlun sem þarna liggur fyrir, en við getum endalaust tekist á um það hvort þetta sé nægilega mikið hér eða nægilega mikið þar.

Þegar rætt er um samdráttinn í heilbrigðisþjónustu og Landspítalinn nefndur sérstaklega þá getur maður vissulega tekið fleiri svið heilbrigðismálanna. Það sem ég er að benda á er að við erum þokkalega sammála um að þessi málaflokkur þurfi meiri umhyggju. Við verðum þá líka að standa saman um það og vera einhuga í því að bæta fjármunum inn í hann. Ég minnist t.d. tillagna sem lágu hér (Forseti hringir.) fyrir við afgreiðslu fjárlaga á síðasta ári, fyrir fjárlög (Forseti hringir.) ársins 2016. Ég bið (Forseti hringir.) hv. þingmann að ganga aðeins inn í huga (Forseti hringir.) sjálfs sín og skoða þær tillögur sem þar (Forseti hringir.) komu fram, bæði frá (Forseti hringir.) stjórn og stjórnarandstöðu og spyrja sig hvort þær samrýmist þeim kröfum (Forseti hringir.) sem uppi eru í dag.