145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

lækkun afurðaverðs til bænda.

[10:47]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Eins og allir vita framleiða íslenskir bændur miklar gæðavörur, háklassamatvæli sem standast allan samanburð við það sem best gerist erlendis, ekki síst hið annálaða íslenska lambakjöt. Það er því hryggilegt að lesa þau tíðindi í fjölmiðlum að sláturleyfishafar hafi nú ákveðið að lækka afurðaverð á lambakjöti til bænda og að birgðir á lambakjöti hafi safnast upp í frystiklefum sláturhúsanna.

Mig langar að ræða þetta ástand við hæstv. landbúnaðarráðherra. Af hverju gerist þetta? Hvað vill ráðherrann gera til þess að taka á þessu ástandi? Bændur hafa skiljanlega mótmælt þessu enda er þetta illskiljanlegt. Það er góðæri og fólk grillar, ferðamenn hafa aldrei verið fleiri og kjötsúpan sjaldan vinsælli. Heimsmarkaðsverð á lambakjöti hefur farið hækkandi og horfur eru góðar. Hvernig má þetta vera? Hví þurfa sauðfjárbændur að bera skarðan hlut frá borði? Bent er á stórir markaðir hafi hrunið og þá aðallega átt við Rússlandsmarkað. Þá vil ég spyrja: Þarf ekki að fara í það að skapa stærri og fleiri markaði fyrir íslenskt lambakjöt og aðrar landbúnaðarafurðir? Stendur þar ekki hnífurinn í kúnni? Íslenskur markaður er of smár. Væri ekki það besta sem gæti komið fyrir íslenska bændur að við mundum greiða fyrir aðgangi þeirra að stærri mörkuðum með tollfrelsi og frjálsum viðskiptum? Er ráðherrann sammála því? Hvað telur hann skynsamlegast að gera í þessu sambandi?

Kjötfjöll og lækkandi afurðaverð sýnir í mínum huga að ofverndarstefnan í íslenskum landbúnaði bitnar ekki bara á neytendum heldur mjög illilega á bændum líka sem sitja núna fastir með vörur sínar í frosti fákeppninnar. Hvers vegna ekki að opna upp og stækka markaðinn, finna nýjar lendur? Eigum við sífellt að vera hrædd við umheiminn þegar kemur að landbúnaði? Það held ég ekki.

Ég vil benda ráðherranum á einn risamarkað við dyragættina sem er Evrópusambandið. Er ekki kominn tími til að íslenskir bændur fái að spreyta sig tollfrjálsir í ESB með sínar góðu afurðir í staðinn fyrir að geyma þær í frysti? Er ekki löngu augljóst að ESB kæmi alla vega bændum og landsbyggðinni til góða, ekki bara frjálsir markaðir heldur aðgangur að uppbyggingarsjóðum sambandsins?