145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

lækkun afurðaverðs til bænda.

[10:49]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ítarlegu fyrirspurn. Ég ætla fyrst að svara þessu með ESB. Það sjá nú allir hvers konar ástand er þar, þannig að við erum fljót að afgreiða það allt saman. Hins vegar er lambakjöt flutt út til Evrópu. Þeir markaðir eins og aðrir hafa reynst býsna erfiðir að undanförnu. Það eru nokkur atriði sem spila þar inn í. Eftirspurnin er einfaldlega önnur. Í fjarlægum löndum, þangað sem við flytjum út kannski aukaafurðir, hefur eftirspurnin líka minnkað, auk þess hefur gengisþróunin verið óhagstæð útflytjendum.

Hérna heima má hins vegar má velta því fyrir sér sem hv. þingmaður nefnir, það er þessi fákeppni sem er á markaði. Það er einfaldlega þannig að það þarf að hækka verð til bænda heima fyrir. Við erum með hágæðavöru eins og hv. þm. nefndi réttilega. Tökum bara lambakjötið, verðið sem það er selt á. Fjögurra, fimm manna fjölskylda getur keypt sér það í matinn fyrir sama verð og ein pitsa kostar fyrir einn. Það er eitthvað skrýtið þegar kemur að verðlagningu á lambakjötinu.

Hvað er hægt að gera í þessu? Í dag er það þannig að þeir sem vilja flytja út kjöt geta gert það að sjálfsögðu. Við erum með net af fríverslunarsamningum sem opna fyrir slík viðskipti. En menn þurfa vitanlega að fá fyrir kostnaðinum og öllu slíku sem af því hlýst. Getum við aukið útflutning á Bandaríkjamarkað? Þar höfum við gert ágæta hluti, við höfum selt 200 tonn eða meira í Whole Foods-búðirnar, svo dæmi sé tekið. Eflaust er hægt að auka það með einhverjum hætti. Getum við komið til stuðnings þar? Við erum með Íslandsstofu og slíka aðila til þess að aðstoða við þess háttar. Við erum með markaðsátakið Iceland Naturally m.a. til að selja lambakjöt, þannig að það er margt í pípunum.

Það er hins vegar rétt að nefna hér að Matvælalandið Ísland er verkefni sem fer vonandi af stað núna í haust sem er ætlað til þess að auka þekkingu, nýsköpun, kynningu og fá bæði Íslendinga og ferðamenn til að kynna sér þá frábæru afurð sem framleidd er á Íslandi. Það eru minnir mig um 80 milljónir sem hægt verður að setja í þetta í ár.