145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

mótun stefnu til að draga úr afleiðingum vímuefnaneyslu.

[10:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég velti fyrir mér hvernig við sjáum fyrir okkur tímalínuna í þessu. Í tillögu 10 er lagður til samráðsvettvangur vegna vímuefnamála, sem í stuttu máli er sá að halda starfinu áfram. Hafandi verið í starfshópnum sjálfur veit ég eins og allir sem þar voru að þetta er málaflokkur sem þróast með tímanum. Eins og annar hv. meðlimur hópsins sagði erum við ekki að byggja álver, þetta er ekki eitthvað sem er á einhverjum tímapunkti tilbúið heldur er þetta verkefni sem heldur sífellt áfram. Því velti ég fyrir mér hvort hæstv. ráðherra sjái fyrir sér að hægt sé að undirbúa fyrst þingmál, svo sem frumvörp eða ályktanir eða því um líkt, sem síðan yrðu rædd í þinginu eða hvort umræðan yrði fyrst um tillögurnar og úr því yrði samráðsvettvangur sem mundi búa til þessi þingmál. Allar hugmyndir sem hæstv. ráðherra hefur í þeim efnum (Forseti hringir.) þætti mér vænt um að heyra.