145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

raforkumál á Vestfjörðum.

[11:01]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég óska eftir að beina fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra um málefni raforkumála. Þannig háttar til að það eru að opnast fyrir okkur ný tækifæri í raforkuframleiðslu á Vestfjörðum, orkukostur þar sem er óumdeildur og hefur verið undirbúinn af mikilli vandvirkni um langan tíma. Nú eru að skapast þær aðstæður að við þurfum að koma því máli áfram til þess að geta undirbúið næstu skref og farið að hefja þar framkvæmdir. Tilefni þess að ég kem hér upp er ekki síst vegna fyrirspurna frá oddvita Árneshrepps sem hefur fengið þær upplýsingar eins og hún metur þær að það standi eitthvað á regluverki að hægt sé að koma áfram því málefni sem mestu skiptir nú að fá skýra mynd á, sem er bygging á nýjum tengipunkti Landsnets í Ísafjarðardjúpi til þess að sækja þá orku. Sá tengipunktur er ákveðin forsenda fyrir þessu verkefni og lengi hefur verið um hann rætt og hann lengi í undirbúningi. Nú er aftur á móti sú mynd komin á að þarna eru mun fleiri orkukostir en áður var talið og því ekki eingöngu um tengipunkt fyrir þessa einu virkjun að ræða heldur miklu fleiri virkjanir og miklu meiri orkuframleiðslu sem þar er möguleg.

Þetta er kannski alveg ný mynd og óvænt staða sem þessi landshluti, sem í svo langan tíma hefur þurft að búa við samdrátt og varnarbaráttu, er að komast í. Því held ég að sé mjög mikilvægt og það er einlægur áhugi allra þingmanna kjördæmisins að fylgja því fast eftir að við fáum núna skýra mynd á það hvar það mál stendur. Því óska ég eftir að hæstv. iðnaðarráðherra komi hér og geti þá svarað því hvar verkið stendur. Hvar er regluverkið að þvælast fyrir? Hvað hyggst ráðherra gera til þess að greiða úr því?