145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

raforkumál á Vestfjörðum.

[11:03]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og þakka enn fremur þá elju sem þingmaðurinn, ásamt öðrum þingmönnum í þessu kjördæmi, hefur sýnt málinu, sem ég er algjörlega sammála þingmanninum um að sé hið mesta þjóðþrifamál. Þarna er um að ræða vatnsafl sem bíður eftir að komast í notkun. Út frá þjóðhagslegum áhrifum og þjóðhagslegri hagkvæmni þá er gríðarlega mikilvægt að það verði að veruleika.

Hvar málið er statt þá er það þannig að ekki þarf lagabreytingar til, ég hef ítrekað komið því á framfæri. Það er ekkert í regluverkinu sem hamlar. En málið er til efnislegrar meðferðar hjá Orkustofnun og hjá Landsneti. Við í ráðuneytinu höfum hins vegar fylgt þessu fast eftir og höfum verið í góðu samstarfi bæði við Orkustofnun og Landsnet. Landsnet er að leggja lokahönd á svokallaðan netmála sem greiðir fyrir þessu regluverki öllu saman og hafa óskað eftir því við ráðuneytið að reglugerð verði sett til að styrkja grundvöll þessa netmála. Það stendur ekki á okkur og við erum með þá reglugerð í lokadrögum og ég vonast til að geta sett hana strax eftir helgi. Þá er ekkert í regluverkinu sem kemur í veg fyrir þetta.

Ég vonast til og segi það við hv. þingmann að ákvörðun verði tekin nú í þessum mánuði. Nú er fyrsti dagur septembermánaðar. Ég vonast til þess að við getum komið málinu í þann farveg að þær fjórar virkjanir sem þarna um ræðir, þetta er ekki bara ein virkjun eins og áður var talið, að fjórar virkjanir geti tengst inn á þennan tengipunkt (Forseti hringir.) sem gerir þetta þjóðhagslega hagkvæmt og (Forseti hringir.) þannig að ekki verð gerð athugasemd til að mynda frá Eftirlitsstofnun EFTA.