145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

raforkumál á Vestfjörðum.

[11:07]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Reglugerðin kemur sannarlega í septembermánuði og ég vonast til að hún verði sett og verði klár strax í næstu viku þannig að þá verði ekkert sem kallar á aðkomu Alþingis eða ráðuneytisins varðandi frekari reglusetningar sem hamlar því að sú ákvörðun að ákveða tengipunktinn verði tekin vonandi í þessum mánuði. Það er það sem við erum að vinna að og ég veit að allir hagsmunaaðilar bæði í orkugeiranum og ekki síst heimamenn gera. Ég sá fyrirspurnina sem hv. þingmaður vísaði til frá oddvita í Ásahreppi (Gripið fram í: Árneshreppi.) Árneshreppi — ég er komin í mitt kjördæmi, virðulegur forseti, ég biðst forláts — og skil áhyggjur, ég skil óþreyjuna. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði að þegar þetta verður orðið að veruleika, við skulum bara tala með ákveðnum hætti, þá munu skapast gríðarleg tækifæri í ferðaþjónustu (Forseti hringir.) og annarri uppbyggingu á svæði sem hefur kallað eftir slíkri (Forseti hringir.) uppbyggingu um langt árabil.