145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[11:49]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég held að eftir þá miklu vinnu sem hefur átt sér stað í nefndinni, og ég þakka nefndarmönnum í atvinnuveganefnd fyrir gott samstarf í þessu máli, séum við að stíga einhver stærstu skref í áratugi að endurnýjun á skipulagi í landbúnaðarmálum okkar en eins og við vitum er það kerfi sem við búum við að mörgu leyti gallað. Við búum þannig um hnútana að það verður endurskoðunartímabil með þátttöku allra hagsmunaaðila þar sem þeir koma að borðinu og það verður kosið um þessi mál aftur eftir þrjú ár, bæði á þingi og meðal bænda. Við höfum hlustað á Samkeppniseftirlitið og sett inn tillögur eins og Samkeppniseftirlitið lagði til sem tryggja m.a. þátt minni framleiðenda til hráefnisöflunar og gagnvart verðlagsákvörðunum.

Ég vona að reynsla okkar sýni að í framtíðinni verði ekki um neina búvörusamninga að ræða heldur verði til lifandi samráðsvettvangur í samfélaginu (Forseti hringir.) þar sem við mótum stefnu til lengri tíma til hagsbóta bæði fyrir bændur og neytendur.