145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[11:57]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þegar þetta lagafrumvarp kemur nú til atkvæðagreiðslu við 2. umr. og eftir mikla vinnu atvinnuveganefndar er rétt að ýmislegt hefur skánað. Það hefur verið stigið hænuskref til að gera frumvarpið betra. En fyrst og fremst er Alþingi sett í þá stöðu vegna formsins á þessum samningum að Alþingi getur litlu sem engu breytt. Það er hlutur sem verður að hafa í huga. Þetta fjallar að miklu leyti um starfsskilyrði bænda og það snertir neytendur líka mjög mikið hvað varðar verðlagningu. Íslenskir bændur eiga heiður skilið fyrir að framleiða góða vöru í öllum tilfellum þar sem ekki eru notuð sýklalyf, ekki notuð vaxtarhormón, hvorki í fóðri né dýrum. Framleiðslan er góð og þetta eru heilnæmar vörur en það eru skiptar skoðanir um verðið. Sumum finnst það hátt, öðrum sanngjarnt o.s.frv.

Við flytjum hér nokkrar breytingartillögur sem við munum gera grein fyrir þegar þær koma til atkvæða, en það eru líka breytingartillögur sem meiri hlutinn gerði að sínum sem ég sem fulltrúi (Forseti hringir.) Samfylkingarinnar í nefndinni hafði hugsað mér að flytja, en það er sama hvaðan gott kemur og við munum styðja þær eftir atvikum. Ég minni svo á og óska formlega eftir því að málið gangi til nefndar milli 2. og 3. umr.