145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[12:16]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Í störfum nefndarinnar höfum við lagt okkur fram um að tryggja hlut minni framleiðenda á markaði. Við teljum mjög mikilvægt að þeim geti fjölgað og starfsemi þeirra geti eflst. Þannig höfum við búið um hnútana. Við óskuðum eftir því að Samkeppniseftirlitið kæmi með tillögur til okkar um hvernig við gætum tryggt stöðu þeirra eftir að við breyttum verðlagningarákvæðum samningsins og höldum okkur við á endurskoðunartímanum það sem hefur verið í gildi, hvernig við gætum tryggt stöðu þeirra innan núverandi kerfis. Það komu tillögur um það frá Samkeppnisstofnun sem eru í frumvarpinu og við gerum breytingartillögur um. Síðan bættum við reyndar við að skipa áheyrnarfulltrúa minni aðila inn í verðlagsnefndina. Þessi tillaga er nefnilega ekki nægilega vel unnin hjá hv. þm. Kristjáni L. Möller. Það skapast ákveðið vandamál við það ef við förum þá leið sem hann boðar. Ég er algerlega tilbúinn til að skoða fullunna tillögu frá honum um breytingar á verðlagsnefnd samhliða þessu sem kæmi þá fram fyrir 3. umr. (Forseti hringir.) málsins. Við höfum ekkert annað markmið en að efla stöðu minni framleiðenda í afgreiðslu málsins.