145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[12:31]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að segja að hér var rætt að við værum að stökkva af vagninum, við vinstri græn sem höfum komið að breytingartillögum í atvinnuveganefnd. Það er hreint ekki rétt. Við styðjum breytingartillögur meiri hlutans sem eru til bóta þrátt fyrir að við sitjum hjá við málið í heild. Það er ekkert ómaklegt við það. En hér erum við að fjalla um breytingartillögu fulltrúa minni hluta Vinstri grænna í atvinnuveganefnd sem gengur út á að heimilt sé að fella niður greiðslur til þeirra sem hafa brotið gróflega eða ítrekað gegn ákvæðum laga um velferð dýra. Við hefðum viljað sjá að meiri hlutinn styddi þessa tillögu, þ.e. að ef um er að ræða bú sem verða ítrekað uppvís að dýraníði eða hafa ekki fylgt almennum reglum sé fortakslaust hægt að fella niður beingreiðslur. Það er óeðlilegt að ríkið sé með einhverjum hætti að greiða bændum, sem vonandi eru afar fáir, sem fara ekki eftir reglum og stunda dýraníð. Við getum ekki fallist á það. Það er mjög merkilegt að sjá (Forseti hringir.) að meiri hlutinn geti ekki stutt slíka tillögu.