145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[12:35]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér er komið að atkvæðagreiðslu um lengd búvörusamnings. Ég flyt tillögu sem tekur af öll tvímæli um að samningurinn sé til þriggja ára en ekki tíu. Það er óljóst í meðförum meiri hlutans hvort hann sé til þriggja ára eða tíu. Það fer eftir því hvort maður talar við framsóknarmenn eða sjálfstæðismenn. Þess vegna er hér tekin afdráttarlaus afstaða um það. Það er nauðsynlegt fyrir Alþingi að tala skýrt í þeim efnum. Það kom lögfræðingur fyrir nefndina eftir beiðni minni, sérfræðingur í samningarétti, sem hvatti nefndina til þess og sagði að tvímælalaust ætti að fylgja með bókun frá samningsaðilum um sameiginlegan skilning, að þetta væri til þriggja ára. Þegar málið var tekið út spurði ég hvort bókunin kæmi ekki. Hún er ekki komin eins og sjá má nú við 2. umr. en boðað var að unnið yrði að því að þessi bókun kæmi fyrir 3. umr. Engu að síður (Forseti hringir.) vil ég halda þessari tillögu inni til að hafa skýrleikann kláran. Alþingi verður að tala skýrt hvað varðar lagasetningu og það er m.a. þess vegna, út af skilningi manna, hvort það er í Framsóknarflokki eða Sjálfstæðisflokki, sem við viljum fá nafnakall til að fá afstöðuna fram.