145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[12:38]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Atvinnuveganefnd fékk á fund sinn sérfræðing í samningarétti frá Háskóla Íslands til þess að fjalla um þetta mál. Í máli hennar var það alveg skýrt að samningsaðilum má vera ljóst að þessi endurskoðunarákvæði halda algerlega. Það er mjög mikilvægt fyrir íslenskan landbúnað, eins og alla aðra atvinnustarfsemi í landinu, að hafa fyrirsjáanleika í störfum sínum, sjá eitthvað inn í framtíðina, til lengri tíma, og þess vegna kjósum við að halda þessum ramma inni. En hann er aðeins rammi til að vinna eftir. Alþingi á á hverju einasta ári síðasta orðið í þeim málum. Það hefur reynt á slíkt þegar það var í lok árs 2008 einhliða ákveðið að lækka greiðslur til bænda án nokkurs samráðs við þá við afgreiðslu fjárlaga á þingi. Þingið hefur aðkomu að þessu máli. Það er ekki verið að binda hendur þingsins til lengri tíma (Forseti hringir.) en árs í senn þegar kemur að þessum málum. Það er mjög mikilvægt að við áttum okkur öll á því, ekki síst fólkið úti í samfélaginu, því að því hefur verið haldið fram að verið sé að binda þetta í tvö og hálft kjörtímabil. Það er rangt.