145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[12:42]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við í Samfylkingunni höfum verið fylgjandi því að opinberir styrkir séu veittir til að styðja við íslenskan landbúnað, þ.e. í því skyni að styrkja gisnar og dreifðar byggðir, styðja við hefðbundna og viðtekna atvinnumenningu í landinu á þeim forsendum að hægt sé að efla og styrkja bændur til vistvænna framleiðsluaðferða, lífrænnar ræktunar og að dýravelferð sé í heiðri höfð og góðir framleiðsluhættir. Þessi samningur er t.d. ekki umhverfisvænn. Hann beinir styrkjum til sauðfjárræktar inn á ofbeitarsvæði, svo dæmi sé tekið. Þetta er samningur sem raskar eðlilegum markaðsaðstæðum. Þetta er ekki góður samningur, hvorki fyrir bændur né neytendur í þessu landi. Þess vegna finnst okkur alveg fráleitt að ætla að fallast á að hér sé samþykktur samningur af þessu tagi til næstu tíu ára. Það er algerlega fráleitt.