145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[12:43]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er full ástæða til að gjalda varhuga við því að hér samþykki menn lagaákvæði sem gildir til ársins 2026 í tengslum við þennan samning. Hv. þm. Páll Jóhann Pálsson sagði í umræðu um samninginn og orðaði dálítið skemmtilega að það réði því svo sem hver sjálfur hvort hann liti svo á að þetta væri þriggja ára samningur eða tíu ára. Þannig má það auðvitað ekki vera í alvörulandi, í alvöruréttarríki. Það verður að vera klárt hvað menn eru að gera. Ekki ómerkari maður en fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra Þorsteinn Pálsson hefur fært fyrir því gild rök að það dansi að minnsta kosti á mörkum stjórnarskrárinnar að binda hendur Alþingis svo lengi fram í tímann varðandi gríðarleg fjárútlát eins og hér er gert þegar um tíu ára samning væri að ræða. Ekki gleyma því hversu miklar fjárhæðir eru í húfi, 200 milljarðar króna. Ég tel þess vegna mjög mikilvægt að við tökum af öll tvímæli í þessu. Ef þessi tillaga okkar verður felld er mjög mikilvægt að nefndin útlisti það mjög skýrt (Forseti hringir.) í lögskýringargögnum að nýtt Alþingi, sem vonandi verður frjálslyndara en þetta hér, hafi fullt svigrúm til þess að breyta þessum samningi á næsta kjörtímabili og það sé (Forseti hringir.) algerlega hafið yfir vafa að ríkið verði ekki bundið (Forseti hringir.) því að þurfa að borga sig út úr þessum samningi þá.