145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[12:47]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér hafa verið lagðar fram margar breytingartillögur og margir komið hér upp og reynt að grafa undan þessu einhvern veginn og koma því inn að hér sé verið að gera vondan samning og hér sé óljóst hvort samningurinn sé til þriggja ára eða tíu. Hér er verið að tala um tíu ára rammasamning, samning eins og við gerum við fjöldamargar atvinnugreinar. Eru þeir sem leggja til að það verði þriggja ára samningur að leggja til að hér eigi að vera pólitísk óvissa þegar menn gera samninga við atvinnufyrirtæki, t.d. um nýsköpunarstyrki og annað, til tíu ára? Eru menn að leggja til að það sé bara hægt að svippa því út reglulega eftir atvikum? Ég held ekki. Hér er verið að leggja til tíu ára rammasamning með skýru endurskoðunarákvæði eftir þrjú ár og ég vil þakka atvinnuveganefnd fyrir góða vinnu. Við leggjum til góðan samning fyrir bændur sem sjá þá fyrir sér hvernig rekstrarumhverfi þeirra verður til tíu ára, með þeim fyrirvara að menn muni leggjast yfir það á næstu þremur árum hvernig það verður eftir þau þrjú ár. Þessi samningur er líka góður fyrir neytendur. Við viljum hafa landbúnaðarvörur á Íslandi og rúmlega (Forseti hringir.) fjórir fimmtu Íslendinga vilja geta keypt íslenskar vörur. Mér heyrist þeir þingmenn sem hér hafa komið upp í allan dag að reyna að grafa undan þessum samningi séu á öðru máli.