145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[13:06]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þingmenn hafa margir hverjir keppst um að kveða ástaróð til samkeppni og markaðshyggju. Það hefur verið látið fylgja með að verið sé að verja hinn smáa. Hinn smái er smáfyrirtæki. Mig langar til að kveða slíkan óð til samvinnunnar og spyrja hverju hún hafi skilað á þessu sviði. Ég er þar að tala um samvinnurekstur íslenskra kúabænda. Ég vil vekja athygli þingsins á því að mjólk og mjólkurafurðir hafa á síðustu árum lækkað að raunvirði um ríflega 20% og varið hag neytenda, bænda, náð niður kostnaði um 3 milljarða á ári, 2 milljarða fyrir neytendur og 1 milljarð fyrir bændur. Þetta fyrirkomulag ætla menn síðan að gera tillögu um að verði eyðilagt. Ég vara við því. Hinn veiki í mínum huga sem þarf að verja er láglaunamaðurinn, láglaunafjölskyldan. Það er fólkið sem við eigum að standa vörð um. (Forseti hringir.) Ég vara við því að hér verði farið í einhvern dans, eitthvert makk, á milli umræðna til að þjóna lund Samkeppniseftirlitsins sem sér það fyrsta hlutverk sitt, virðist mér, (Forseti hringir.) að grafa undan samvinnurekstri sem hefur fært okkur mikinn ávinning, sérstaklega láglaunafólki á Íslandi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)